150. löggjafarþing — 6. fundur,  17. sept. 2019.

kynningarfundur í ráðuneyti á þingfundartíma.

[13:42]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Það er náttúrlega miður að ekki sé hægt að samræma þetta en að sjálfsögðu munum við líka koma þessum athugasemdum á framfæri við ráðherra. Um leið vil ég undirstrika það — og ég vona að ég hafi málfrelsi í þessum ræðustól og að ég sé varin gagnvart frammíköllum þingmanna stjórnarliðsins þannig að hægt sé að svara þeim efnislega, ég vona að ég megi verja málfrelsi mitt hér — að þetta er auðvitað umhugsunarefni. Við erum á fyrstu dögum þingsins, nýs þings, við settum það í síðustu viku, og það er strax kominn árekstur. Það er eins og framkvæmdarvaldið ætli að valta yfir löggjafarvaldið í störfum sínum og það gengur náttúrlega ekki. Ég vil þá um leið fagna því sérstaklega að forseti ætli sér að taka þetta mál upp og ég vona að hann geri það á forsendum þingsins en ekki á forsendum þess að hann sé stuðningsmaður ríkisstjórnarinnar sem virðist ætla að umgangast þingið af léttúð.