150. löggjafarþing — 6. fundur,  17. sept. 2019.

kynningarfundur í ráðuneyti á þingfundartíma.

[13:43]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Herra forseti. Ég ætla að taka undir það að það er óheppilegt, svo ekki sé meira sagt, að þessi fundur í ráðuneytinu sé boðaður á þeim tíma sem þessi mikilvæga umræða fer fram á eftir. Ég ætlaði hins vegar að hrósa hæstv. forseta. Hér hafa komið athugasemdir frá hv. þingmönnum stjórnarandstöðunnar. Forseti Alþingis Íslendinga hefur tekið undir þær athugasemdir. Hæstv. forseti hefur lofað því að koma þeim skilaboðum á framfæri við viðkomandi hæstv. ráðherra að þetta gangi ekki. Hæstv. forseti hefur sagt ástæðuna vera þá að rúmlega helmingur þingmanna séu boðaðir í burtu. Með öðrum orðum hefur forseti orðið við, að ég hef heyrt, öllum réttmætum athugasemdum hv. þingmanna stjórnarandstöðunnar. Þannig að ég ætla nú bara að hrósa hæstv. forseta Alþingis fyrir að bregðast svona vel við.