150. löggjafarþing — 6. fundur,  17. sept. 2019.

kynningarfundur í ráðuneyti á þingfundartíma.

[13:44]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Virðulegur forseti. Það er gott að vita til þess að forseti eigi góða liðsmenn hér í salnum sem taka upp hanskann fyrir hann þó að mér þyki hann fullfær um það sjálfur. Ég þakka hæstv. forseta fyrir að taka vel í þennan málflutning og ég treysti því að því verði beint hið snarasta til hæstv. samgönguráðherra að fresta fundi´sínum til þess tíma þegar þingmenn eiga kost á því að sækja hann. Það er fordæmalaust virðingarleysi við störf þingsins að framkvæmdarvaldið boði drjúgan hluta þingmanna til samráðsfundar sem kallað hefur verið eftir á sama tíma og í gangi er þingfundur um mikilvæg stjórnarmálefni.

Ég geri ráð fyrir því að hæstv. samgönguráðherra hafi verið fullmeðvitaður um bæði að þingfundur væri í gangi og hvað ætti að ræða hér á sama tíma. En ég þakka forseta fyrir góð viðbrögð og treysti því að hann beiti sér fyrir því að fundi samgönguráðherra verði frestað.