150. löggjafarþing — 6. fundur,  17. sept. 2019.

störf þingsins.

[13:53]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Ég ræddi í fyrirspurnatíma í gær við hæstv. heilbrigðisráðherra um vanda á bráðamóttöku Landspítalans. Það er ljóst í huga ráðherrans og okkar allra að þar er ærinn vandi, mikil þrengsli og skortur bæði á fólki og tíma. Það liggur fyrir að það tekur tíma að ljúka byggingu nýs sjúkrahúss sem mun í framtíðinni tryggja eðlilegra flæði sjúklinga en nú standa u.þ.b. 40 auð rými á Landspítalanum, aðallega vegna skorts á hjúkrunarfræðingum.

Virðulegur forseti. Í bráð getum við gert það meira aðlaðandi að sinna störfum í heilbrigðisþjónustunni. Það er okkar verkefni núna að bregðast skjótt við, stytta móttökutíma bráðamóttökunnar úr 22 klukkustundum í það sem algengt er erlendis, í 6–8 klukkustundir, en til þess þarf starfsfólk. Það þarf að bæta aðstöðuna eins og hægt er og fjölga starfsmönnum. Okkur vantar tugi, jafnvel 100 hjúkrunarfræðinga, til starfa til að gera þetta bærilegt þar til aðstaðan verður að fullu bætt. Við þurfum að kalla til þá hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða sem hafa horfið til annarra starfa og það gerum við aðeins með því að gera starfsumhverfið og launin meira aðlaðandi en þau hafa verið. Þetta þolir enga bið. Skórinn kreppir víða í rekstri í heilbrigðiskerfinu þrátt fyrir að við höfum spýtt inn milljörðum eftir milljarða ár eftir ár. Nú er bráðavandi á bráðamóttökunni og hann þarf að leysa strax. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)