150. löggjafarþing — 6. fundur,  17. sept. 2019.

störf þingsins.

[14:00]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Í fyrra bárust fréttir af því að vopnuðum útköllum sérsveitarinnar hefði fjölgað þannig að þau væru orðin þreföld. Það kom í kjölfar fyrirspurnar frá hv. þm. Smára McCarthy. Nýlegar fréttir hafa borist af ríkislögreglustjóra sem ég ætla ekki að tíunda hér enda nóg að tala um þar. Það er daglegt brauð að lögreglumenn hóti tilhæfulausum tilfærslum á fólki niður á stöð ef það samþykkir ekki líkamsleit og af og til berast fréttir af misnotkun viðkvæmra persónuupplýsinga sem væntanlega skánar þó með tímanum í kjölfar betri persónuverndarlöggjafar. Síðast en ekki síst benda skýrslur nefndar um eftirlit með lögreglu til þess að meira eftirlits sé þörf.

Lögreglumenn vilja njóta trausts, lögreglumenn vilja að ramminn sé skýr, lögreglumenn vilja að aðhald sé með störfum þeirra, í það minnsta þeir lögreglumenn sem ég hef talað við og meira að segja lögreglumenn sem hafa talað á þingi og skrifað greinar um það. Á sínum tíma lögðu Píratar fram þingsályktunartillögu um sjálfstætt eftirlit með störfum og starfsháttum lögreglu. Við biðum með að leggja það aftur fram þegar nefnd um eftirlit með störfum lögreglu var sett á fót vegna þess að við vildum sjá hvernig reynslan af þeirri nefnd yrði. Núna er sú reynsla komin, komnar tvær ársskýrslur, og við teljum ljóst af nýlegum fréttaflutningi sem og gömlum, sem og þeim skýrslum sem komu frá þeirri ágætu nefnd að þörf sé á sjálfstæðri stofnun til að hafa eftirlit með störfum og starfsháttum lögreglu.

Því munum við leggja málið aftur fram og höfum reyndar aftur lagt fram þessa þingsályktunartillögu sem ég vona að komist til umræðu hér á fimmtudaginn. Mig langaði að koma hingað upp og auglýsa þetta aðeins en líka til að undirstrika það alveg í byrjun að það er ekki áfellisdómur í sjálfu sér yfir lögreglumönnum. Lögreglumenn eru venjulegt fólk sem sinnir ákveðnu starfi með öllum þeim kostum og göllum sem því fylgir og það að hafa eftirlit með þeirri einu stofnun í landinu sem má beita líkamlegu valdi er spurning um hvernig við viljum hafa innviðina (Forseti hringir.) okkar, hvernig við viljum hafa rammann utan um þá mikilvægu stofnun sem lögreglan er.