150. löggjafarþing — 6. fundur,  17. sept. 2019.

störf þingsins.

[14:11]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Frú forseti. Mig langar eiginlega að taka þátt í umræðunni sem var hér í gangi en ég ætla samt aðeins að ræða um störf þingsins. Á undanförnum árum hefur svokölluðum aukanefndum fjölgað mikið, bæði á vegum þingsins sem og ríkisstjórnarinnar sem þingmenn manna þó. Störf þessara nefnda eru mikilvæg leið fyrir þjóðkjörna fulltrúa til að koma að mikilvægri vinnu, stundum smáatriðavinnu sem annars yrði stundum ekki unnin eða stundum unnin með síður lýðræðislegum hætti. Þessari þróun fagna ég. Fjölgunin hefur skapað tímapressu á þingi sem er ekki stærra en þetta og ekki síst samkeppni um þá fáu tíma vikunnar sem falla ekki undir störf fastanefnda eða þingfundi. Við sáum dæmi um það bara rétt áðan.

Það er nauðsynlegt að þessar aukanefndir og alþjóðanefndir starfi en það er einnig nauðsynlegt að störf þeirra skarist ekki við önnur mikilvæg þingstörf. Ég velti fyrir mér hvort ekki sé nauðsynlegt að búa til meira pláss og jafnvel fast pláss í dagskrá þingsins fyrir störf bæði aukanefnda og alþjóðanefnda en ekki bara að vona að þetta passi allt rétt fyrir hádegi á miðvikudögum og kannski þriðjudögum og svo alla föstudagana.

Kannski er einnig rétt að minnast á mikilvægi þess að þingmenn hafi líka tíma til að fara út í samfélagið og tala við fólk en séu ekki alltaf hér í Kvosinni.

Mikið hefur verið talað um að Alþingi fjalli lengur um mál að jafnaði en önnur þjóðþing. Ég segi lengur en ekki meira vegna þess að annars staðar er ferlið einfaldlega öðruvísi, jafnvel skilvirkara, það er oftast með áherslu á störf þingnefnda á kostnað svokallaðra „plenary“-funda, með leyfi forseta, þ.e. allsherjarfunda.

Ég nefni þetta sem persónulegt innlegg inn í þau störf sem eru fram undan við breytingar á þingsköpum í von um að skilvirkni aukist. Þetta er eiginlega tillaga um að við tölum minna og vinnum meira sem ég veit ekki hversu vel verður tekið í. Auðvitað vil ég ekki takmarka málfrelsi þingmanna en kannski getum við skapað einhvers konar menningu sem minnkar tjáningarþörfina.