150. löggjafarþing — 6. fundur,  17. sept. 2019.

störf þingsins.

[14:16]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Frú forseti. Á Íslandi er talið að um 20.000 manns þjáist af þunglyndi. Þar af er þunglyndi eldri borgara sérstakt vandamál. Vandamálið felst m.a. í því að það er að einhverju leyti falið og ógreint. Talið er að allt að helmingi hærra hlutfall eldri borgara sýni einkenni þunglyndis en almennt gerist hjá öðrum aldurshópum. Missir maka eftir langt hjónaband, einmanaleiki, verkefnaleysi, óvirkni, hreyfingarleysi, missir sjálfstæðis, stofnanavist, fjárhagsáhyggjur, félagsleg einangrun og jafnvel lífsleiði geta verið veigameiri orsök hjá eldri borgurum en hjá öðrum hópum. Þunglyndi getur verið lífshættulegur sjúkdómur en er oft læknanlegt. Þá er þunglyndi einn stærsti einstaki áhættuþátturinn hvað varðar sjálfsvíg. Þess vegna er mikilvægt að skoða tíðni sjálfsvíga og sjálfsvígstilrauna eldri borgara, en að sjálfsögðu ber að nálgast slíkt af mikilli varúð og nærgætni. Hins vegar, frú forseti, hefur sjálfsvígum eldri borgara fjölgað undanfarin ár. Þunglyndi eldri borgara hefur hins vegar ekki verið rannsakað nægilega hér á landi og höfum við í Samfylkingunni nú flutt tillögu hér á þingi til að bæta úr því. Rannsókna og aðgerða er þörf.

Frú forseti. Það er ljóst að þunglyndi eldri borgara og vanlíðan þeirra snertir ekki einungis þann hóp djúpt heldur einnig alla aðstandendur og fjölskyldur þeirra. Ég held að fá mál séu mikilvægari fyrir þingið til að sameinast um og samþykkja. Þunglyndi og einmanaleiki eiga ekki að vera eðlilegir fylgifiskar öldrunar. Pólitík á ekki síst að snúast um hvernig okkur líður.