150. löggjafarþing — 6. fundur,  17. sept. 2019.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2020.

2. mál
[14:21]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna fjárlaga fyrir árið 2020. Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á allmörgum lögum í samræmi við forsendur frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2020. Efnisatriði frumvarpsins eru af margvíslegum toga og hafa bæði áhrif á tekju- og gjaldahlið fjárlagafrumvarpsins. Ég mun nú fjalla nokkuð ítarlega um þau atriði sem mestu máli skipta en sú yfirferð er ekki endilega í þeirri röð sem er að finna í frumvarpinu.

Í fyrsta lagi er verðlagsuppfærsla krónutöluskatta og gjalda. Í frumvarpinu er að finna tillögur um 2,5% hækkun á hinum svokölluðu krónutölusköttum í samræmi við verðlagsforsendur fjárlagafrumvarpsins. Er þá miðað við áætlaða 12 mánaða breytingu á vísitölu neysluverðs yfir árið 2019 sem er 3,4% samkvæmt þjóðhagsspá Hagstofunnar. Hins vegar er ekki gert ráð fyrir meiri hækkun en sem nemur 2,5% af verðbólgumarkmiði Seðlabanka Íslands til samræmis við verðbólgumarkmiðið, gæti maður sagt, en hér er til þess að líta að yfirlýsing var gefin í tengslum við gerð lífskjarasamningana um að gjöld myndu ekki hækka nema um verðbólgumarkmiðið.

Hvað er hér undir? Hér er undir olíugjald, almennt og sérstakt bensíngjald, almennt og sérstakt kílómetragjald, bifreiðagjald, gjald af áfengi og tóbaki, gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra og sérstakt gjald vegna Ríkisútvarpsins. Gert er ráð fyrir að þessi hækkun skili ríkissjóði samanlagt 1,4 milljörðum kr. á ári að meðtöldum hliðaráhrifum á virðisaukaskatt, þ.e. hluti þeirrar fjárhæðar er vegna hliðaráhrifanna. Áhrifin á vísitölu neysluverðs eru áætluð smávægileg, 0,07%, og er þá hækkun útvarpsgjalds og gjalds í Framkvæmdasjóð aldraða ekki innifalið en þau gjöld hafa ekki áhrif á vísitölu neysluverðs.

Í öðru lagi eru gjaldskrár vegna kostnaðar við rekstur Fjármálaeftirlitsins. Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á gjaldhlutföllum eftirlitsgjalds samkvæmt lögum um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Breytingarnar endurspegla álagt eftirlitsgjald að fjárhæð 2.330 millj. kr. Gert er ráð fyrir að heildargjöld Fjármálaeftirlitsins verði 2.479 millj. kr. og aðrar tekjur 42 millj. kr. Þannig er gert ráð fyrir að heildargjöld stofnunarinnar verði 96 millj. kr. umfram samtölu tekna og verði mætt með lækkun á eigin fé stofnunarinnar.

Gert er ráð fyrir að breytingarnar sem taka mið af rekstraráætlun Fjármálaeftirlitsins hafi ekki áhrif á afkomu ríkissjóðs.

Í þriðja lagi er greiðsla kostnaðar við rekstur umboðsmanns skuldara. Lagt er til að gjald sem standa á straum af kostnaði við rekstur umboðsmanns skuldara verði 0,007637% sem er lækkun frá þessu ári. Í lögum um gjaldtökuna er kveðið á um að tekið skuli tillit til rekstrarafgangs eða rekstrartaps af starfsemi umboðsmanns skuldara við ákvörðun á fjárhæð gjalds fyrir næsta almanaksár. Innheimtar tekjur af gjaldinu eru áætlaðar 286 millj. kr. á árinu 2020.

Í fjórða lagi er gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra og útvarpsgjaldið. Það er sem sagt lögð til 2,5% hækkun á gjaldi í Framkvæmdasjóð aldraðra í samræmi við verðlagsforsendur fjárlagafrumvarpsins fyrir árið 2020 og áður útgefna yfirlýsingu sem ég hef vísað til. Samkvæmt því verður gjaldið 11.740 kr. á hvern gjaldanda við álagningu opinberra gjalda á árinu 2020 vegna tekna ársins 2019. Áætlað er að hækkunin skili ríkissjóði um 65 millj. kr. í viðbótartekjur. Jafnframt er gert ráð fyrir því að sérstakt gjald vegna Ríkisútvarpsins verði hækkað úr 17.500 kr. í 17.900 kr. í takt við þá stefnu sem hér hefur verið mörkuð. Áætlaðar viðbótartekjur af hækkuninni nema um 120 millj. kr. árlega.

Í fimmta lagi er það rekstrarkostnaður hjúkrunarrýma og kostnaðarþátttaka heimilismanna. Það er lagt til nýtt ákvæði til bráðabirgða í lögum um málefni aldraðra. Er það gert til að koma í veg fyrir að kostnaðarþátttaka heimilismanna á dvalar- og hjúkrunarheimilum aukist við það að tengingar við tekjur maka voru afnumdar. Jafnframt er lagt til að gildandi ákvæði til bráðabirgða í lögunum verði framlengt. Þetta leiðir til þess að heimilt verður að verja fé úr Framkvæmdasjóði aldraðra til að standa straum af rekstrarkostnaði hjúkrunarrýma á árinu 2020. Verði frumvarpið að lögum munu útgjöld ríkissjóðs aukast um 200 millj. kr. frá því sem annars hefði orðið vegna þessara ákvæða.

Í sjötta lagi er samspil örorkugreiðslna almannatrygginga og lífeyrissjóða. Í frumvarpinu er lögð til framlenging á ákvæðum til bráðabirgða til að sporna gegn því að víxlverkanir örorkubóta almannatrygginga og örorkulífeyris lífeyrissjóða hefjist að nýju á árinu 2020. Þá er gert ráð fyrir að fjárhæð frítekjumarks vegna atvinnutekna örorkulífeyrisþega við útreikning tekjutryggingar og heimilisuppbótar verði sú sama á árinu 2020 og á þessu ári. Frítekjumarkið er nú 1.315.200 kr. á ári sem jafngildir 109.600 kr. á mánuði. Verði það ekki framlengt mun frítekjumark örorkulífeyrisþega vegna atvinnutekna lækka úr 1.315.200 kr. á ári í 300.000 kr. og myndi leiða til lækkunar bóta hjá þeim örorku- og endurhæfingarlífeyrisþegum sem hafa atvinnutekjur yfir frítekjumarkinu. Við erum sem sagt að styðja betur við þessa hópa, enda er það svo að verði þetta ákvæði ekki framlengt myndu útgjöld lækka um 1 milljarð kr. á árinu 2020.

Í sjöunda lagi er lögð til framlenging á ákvæðum til bráðabirgða við lög um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða og lögum um tryggingagjald sem kveður á um að starfsendurhæfingarsjóðir fái ekki tekjur af almennu tryggingagjaldi á árinu 2020. Sambærilegt ákvæði hefur verið í gildi fyrir árin 2013–2019. Eftir sem áður er áfram gert ráð fyrir óbreyttri fjármögnun frá atvinnurekendum og lífeyrissjóðum, 0,10%. Þá er jafnframt gert ráð fyrir því að samkomulagi milli fjármála- og efnahagsráðherra og félags- og barnamálaráðherra annars vegar og VIRK Starfsendurhæfingarsjóðs hins vegar verði breytt til samræmis og að á næsta ári leggi ríkissjóður starfsendurhæfingarsjóði til framlag á fjárlögum.

Í áttunda lagi eru sóknargjöldin. Gert er ráð fyrir að föst krónutala sóknargjalda hækki úr 925 kr. á mánuði samkvæmt gildandi lögum í 930 kr. fyrir árið 2020, um 5 kr. Lögboðið framlag til sókna þjóðkirkjunnar og annarra trúfélaga breytist að öllu jöfnu í samræmi við áætlaða breytingu á meðaltekjuskattsstofni einstaklinga 16 ára og eldri, sem og fjölgun einstaklinga. Nú er hins vegar gert ráð fyrir að fastsetja fjárhæð sóknargjalda, með breytingu á lögum um sóknargjöld líkt og í fjárlögum 2019.

Í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir samtals 3.286 millj. kr. framlagi til þeirra liða sem sóknargjald reiknast á að teknu tilliti til almennra aðhaldskrafna í forsendum frumvarpsins og nemur heildarhækkun sóknargjaldsins því á fjárlögum 2019 13,7 millj. kr.

Í níunda lagi er gjaldskyld losun gróðurhúsalofttegunda og úrvinnslugjald. Það er gert ráð fyrir að fjárhæð losunargjalds vegna hvers tonns gjaldskyldrar losunar verði hækkuð úr 1.256 kr. í 3.025 kr. til samræmis við breytingar á meðalverði losunarheimilda á Evrópska efnahagssvæðinu eins og það er á árstímabili sem lýkur 31. júlí árið áður. Jafnframt eru lagðar til breytingar á úrvinnslugjaldi vegna bifreiða, plastumbúða, heyrúlluplasts, olíuvara, málningar, prentlita, varnarefna og raf- og rafeindatækja. Gert er ráð fyrir að þessar breytingar muni hafa óveruleg áhrif á tekjur ríkissjóðs.

Varðandi vaxtabætur er lagt til að bráðabirgðaákvæði sem kveður á um útreikningsreglur vaxtabóta verði framlengt eitt ár í viðbót sem þýðir að reiknireglur og viðmiðunarfjárhæðir kerfisins verði þær sömu á næsta ári og voru á þessu ári. Á grundvelli þeirra forsendna er áætlað að útgjöld vegna vaxtabóta nemi 3,4 milljörðum kr. á árinu 2020.

Í ellefta lagi er skattur á flúoraðar gróðurhúsalofttegundir og skattur á urðun almenns og óvirks úrgangs. Í frumvarpinu er lagt til að tekinn verði upp nýr skattur, annars vegar á flúoraðar gróðurhúsalofttegundir sem fluttar eru til landsins og hins vegar á urðun almenns úrgangs og urðun óvirks úrgangs, svokallaðir grænir skattar. Markmiðið með þessu er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda þannig að stjórnvöld geti uppfyllt skuldbindingar sínar í loftslagsmálum og náð markmiðum um kolefnishlutleysi árið 2040. Þessi skattlagning er ný af nálinni. Í öðrum löndum hefur hún verið innleidd og skilað árangri. Hún getur gert það á skömmum tíma ef samstaða næst um leiðir í þessu efni og hér er lykilatriðið að til eru valkostir við annars vegar flúoraðar gróðurhúsalofttegundir til kælingar og hins vegar við það að urða.

Ef ég byrja aðeins á að fjalla um flúoraðar gróðurhúsalofttegundir vil ég geta þess að slíkar lofttegundir sem fluttar eru til landsins eru m.a. notaðar sem kælimiðlar í kælikerfi í iðnaði. Það er lagt til að skatturinn verði einungis lagðir á lofttegundirnar sjálfar og efnablöndur sem innihalda þær en ekki vörur eða búnað sem krefjast slíkra lofttegunda. Lagt er til að lagðar verði 2.500 kr. á kílógramm flúoraðra gróðurhúsalofttegunda fyrir hvert tonn koldíoxíðjafngildis að skilgreindu verðþaki sem nemur 10.000 kr. á kíló. Þetta er sambærileg nálgun og beitt hefur verið í Danmörku. Í þessu frumvarpi er áætlað að á meðan breytingin er að eiga sér stað muni tekjur skila sér af skattinum til ríkissjóðs og geti numið allt að 600 millj. kr. á ári en eftir því sem dregur úr markaðssetningu efnanna, bæði vegna skattsins og annarra aðgerða til að draga úr notkun þeirra, er ljóst að tekjurnar munu dragast saman og vonandi hverfa.

Varðandi urðun almenns og óvirks úrgangs er rétt að halda til haga athugasemdum sem bárust frá sveitarstjórnarstiginu við áformaskjal sem kynnt var á sumarmánuðum. Ég vænti þess að nefndin muni vilja taka til skoðunar þær ábendingar sem þar komu fram en af hálfu sveitarstjórnarstigsins voru uppi hugmyndir um að sveitarstjórnarstigið fengi þetta úrræði til sín en einnig voru áhyggjur af of hraðri innleiðingu en við gerum þó ráð fyrir því að innleiðingin verði í skrefum. Hér er sem sagt lagt til að lagður verði skattur á urðun almenns úrgangs og óvirks úrgangs en bein losun gróðurhúsalofttegunda frá meðhöndlun úrgangs stafar fyrst og fremst frá urðun hans. Það er lagt til að upphæð skattsins verði 15 kr. á hvert kíló af urðuðum almennum úrgangi að undanskildum óvirkum úrgangi og 0,5 kr. á hvert kíló af urðuðum óvirkum úrgangi. Miðað við nýjustu tölur um magn og samsetningu úrgangs, sem er urðaður, er gert ráð fyrir að skatturinn gæti til að byrja með skilað allt að rúmum 1 milljarði en sú fjárhæð myndi eðlilega fara lækkandi ef árangur verður meiri hvað snertir meiri flokkun. Það er talið að um 40% urðaðs úrgangs komi frá heimilum en um 60% frá fyrirtækjum. Af þessu leiðir að fara þarf í töluvert mikið átak til að tryggja aðstöðu, móttöku og þátttöku heimilanna við frekari flokkun. Sett hafa verið töluleg markmið um samdrátt í urðun og því verður að ráðgera að tekjur muni dragast saman ár frá ári eins og ég rakti áðan. Þessum skatti er ætlað að styðja við þessi tölulegu markmið.

Eins og ég rakti áðan er gert ráð fyrir því að í ákvæði til bráðabirgða verði kveðið á um að á árinu 2020, á næsta ári, verði skatturinn einungis innleiddur að hálfu leyti, þ.e. að einungis skuli greiða helming þeirrar fjárhæðar skatts sem kveðið er á í lögunum af flúoruðum gróðurhúsalofttegundum og vegna urðunar almenns óvirks úrgangs. Hér er lagt upp með að á árinu 2021 verði greiddur fullur skattur í samræmi við ákvæði laganna. Því er gert ráð fyrir að álagning nýrra grænna skatta muni auka tekjur, eins og ég hef hér rakið, um allt að 1,5 milljarða á næsta ári og mögulega um 1 viðbótarmilljarð á árinu 2021 en ekki er gott að spá nákvæmlega fyrir um það hversu hratt þessar tekjur munu lækka, með öðrum orðum vitum við ekki nákvæmlega hver árangurinn af þessum aðgerðum verður. Ég vænti þess að nefndin muni vilja eiga samtal við hagsmunaaðila í þessu efni og m.a. leggja mat á það hversu vel við erum í stakk búin til að innleiða þessa breytingu jafn hratt og hér er gert ráð fyrir.

Þegar allt þetta er tekið saman má nefna að þær tillögur sem ég hef hér rakið eru af margvíslegum toga. Það sama má segja um áhrifin, þau eru mismunandi á ráðstöfunartekjur, verðlag og kaupmátt. Hækkun útvarpsgjalds og gjalds í Framkvæmdasjóð aldraðra nemur samtals 185 millj. kr. en þar koma hins vegar engin áhrif á vísitölu neysluverðs eins og ég rakti áður. Verðlagsuppfærslan mun auka tekjur um 1,4 milljarða og hafa þau áhrif sem ég hef nefnt, 0,07%, á vísitölu neysluverðs. Við gerum ráð fyrir því að grænu skattarnir muni auka tekjur tímabundið, eins og ég hef hér rakið, og síðan eru óbreyttar viðmiðanir vaxtabótakerfisins sem hafa áhrif á útgjöld vegna vaxtabóta eins og ég hef sömuleiðis farið yfir. Aðrar breytingar hafa ýmist áhrif á tekju- og/eða gjaldahlið en samanlögð áhrif af þeim breytingum eru talin vera óveruleg á annað í frumvarpinu en ég hef hér sérstaklega rakið.

Að þessu sögðu, virðulegi forseti, legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að lokinni þessari umræðu.