150. löggjafarþing — 6. fundur,  17. sept. 2019.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2020.

2. mál
[14:38]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er áhugavert frumvarp og snýst svolítið um hversu langt við göngum í að fjármagna opinbera þjónustu með sköttum annars vegar og þjónustugjöldum hins vegar. En í ljósi þess að einn af liðum þessa frumvarps snýst um samspil örorkugreiðslna almannatrygginga og lífeyrissjóða, þar sem verið er að koma í veg fyrir hina svokölluðu víxlverkun þar að lútandi, langar mig að spyrja hæstv. fjármálaráðherra út í frekari áform um afnám svokallaðrar krónu á móti krónu skerðingar gagnvart öryrkjum. Ég sé þess ekki í stað í frumvarpinu eða nýsamþykktri fjármálaáætlun að það sé fjármagnað. Fyrst hér er verið að fjalla um málið með óbeinum hætti langar mig að kalla eftir svörum frá ráðherranum um hvort ekki standi enn til að afnema þá skerðingu í tilviki öryrkja. Og hvernig ætlar hæstv. ráðherra að fjármagna það, ef ekki er gert ráð fyrir því í fjármálaáætlun annars vegar og fjárlagafrumvarpinu sem við erum að fara að ræða í vetur?