150. löggjafarþing — 6. fundur,  17. sept. 2019.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2020.

2. mál
[14:40]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Mér sýnist í fjárlagafrumvarpi og bandormi hæstv. ráðherra einungis gert ráð fyrir rúmlega 1 milljarði til að mæta óskum og eðlilegum kröfum öryrkja. Kostnaður við afnám krónu á móti krónu skerðingar hefur verið metinn um 10–15 milljarðar þannig að reikningsdæmið gengur ekki alveg upp. Við setjum hér fimm ára áætlun sem gerir ekki ráð fyrir þessum fjármunum. Við gerum ráð fyrir fjárlagafrumvarpi sem sömuleiðis gerir ekki ráð fyrir þessum fjármunum þannig að aftur velti ég fyrir mér: Þurfa öryrkjar enn eitt árið að bíða eftir þessum réttmætu kröfum sínum og enn og aftur að bíða eftir að stjórnmálaflokkar, sem hafa allir lofað því að afnema eigi þessa skerðingu, fjármagni afnámið?

Ég tek undir þau orð hæstv. ráðherra að hér þarf að ljúka heildarendurskoðun en öryrkjar, sem eru um 21.000 manns, þetta slagar upp í heilt kjördæmi, eru orðnir langþreyttir að bíða eftir að þetta skref sé stigið til fulls. En til að við getum gert það þarf að sjálfsögðu að gera ráð fyrir (Forseti hringir.) fjármagni til þess. Og 1 milljarður dugar skammt hvað það varðar þegar um er að ræða 10–15 milljarða kr. kostnað.