150. löggjafarþing — 6. fundur,  17. sept. 2019.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2020.

2. mál
[14:43]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra yfirferðina. Það má taka undir orð ráðherra um að heppilegt væri að taka á öllum þeim bráðabirgðaákvæðum sem þarna eru og er verið að framlengja. Það virðist vera að varanlegustu ákvæðin í skattalöggjöfinni okkar séu alls konar bráðabirgðaákvæði sem við erum svo að framlengja frá ári til árs. En það sem mig langaði að spyrja hæstv. ráðherra út í er hins vegar það sem ekki er að finna í þessum bandormi, sem eru tekjuáform upp á liðlega 3 milljarða, annars vegar í aukinni gjaldtöku á umferð og hins vegar aukinni gjaldtöku á ferðamenn sem gert er ráð fyrir í tekjuáætlun fjárlagafrumvarps. Gert er ráð fyrir aukinni gjaldtöku á ferðamenn upp á 2,5 milljarða og aukinni gjaldtöku á umferð, umfram krónutöluhækkanir á vörugjöldum og eldsneytisgjöldum, upp á 900 milljónir. Nú kemur ítrekað fyrir að skattbreytingar koma með mjög skömmum fyrirvara fram og þar af leiðandi er mjög erfitt fyrir t.d. atvinnulífið að laga sig að breyttum veruleika. Í ljósi þess að enn bólar ekkert á útfærðum tillögum á (Forseti hringir.) því hvernig útfæra eigi þessar skattbreytingar spyr ég: Stendur til að draga þær til baka eða eigum við von á viðbót hvað þær varðar síðar?