breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2020.
Virðulegi forseti. Já, það er rétt að af öllum þessum rúmlega 900 milljörðum sem við erum með í fjármálaáætlun reynum við að gera okkar besta í samtali við þingið til að brjóta niður, jafnvel niður í hundruð milljóna og mögulega smærri fjárhæðir, jafnvel niður í tugi milljóna, nákvæmlega hvaða forsendur eru að baki heildartölunni. Það er rétt að í fjármálaáætlun hefur verið gert ráð fyrir því á undanförnum árum að einhvers konar útfærsla á komu- eða brottfarargjöldum, eða einhvers konar önnur útfærsla, eins og við snertum aðeins á í stjórnarsáttmálanum, kæmi inn á tekjuhliðina og er það ein af undirliggjandi forsendum heildarfjárhæðarinnar. Við erum ekki komin með neina útfærslu og enga endanlega ákvörðun um það hvort ráðist verður í slíka gjaldtöku. Við höfum í augnablikinu áhyggjur af stöðunni í ferðaþjónustu. Ég gæti í því sambandi t.d. bent á (Forseti hringir.) gríðarlega mikinn halla í rekstri Icelandair á fyrri hluta þessa árs og er nokkuð ljóst að varla er hægt að bæta álögum á farmiðann við þessar aðstæður.