breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2020.
Forseti. Nú geri ég mér grein fyrir að hæstv. ráðherra er vanur því að fást við stórar fjárhæðir og vísar hér til þeirra u.þ.b. 1.000 milljarða sem fjárlögin hljóða upp á í ár. En það sem ég er að benda á er að þó að þetta sé ekki risavaxin tala í hinu stóra samhengi er áætluð gjaldtaka af ferðaþjónustunni samt 2,5% af fjárlögunum og það munar alveg um það. En það væri þá kannski bara hreinna gengið fram — af því að staðan virðist vera óbreytt frá því að við ræddum fjármálaáætlun í vor og auðvitað var hugsunin með fjármálaáætlun m.a. sú að auka fyrirsjáanleika ríkisfjármálanna — og það er ekkert óeðlileg krafa að gjaldtaka sem boðuð var í vor væri þá annaðhvort útfærð nákvæmlega í fjárlagafrumvarpi að hausti eða hreinlega gefin skýr yfirlýsing um að af henni yrði ekki. Og þess vegna ítreka ég spurningu mína: Stendur til að auka þessi gjöld (Forseti hringir.) eða hefur verið tekin ákvörðun um að hætta við þessa gjaldtöku?