breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2020.
Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir hans framsögu. Ég hef tvær spurningar. Í V. kafla frumvarpsins kemur fram breyting á lögum um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Í greinargerðinni segir að hér sé verið að lækka gjöld á viðskiptabanka og einnig á vátryggingamiðlara, lífeyrissjóði og Lánasjóð sveitarfélaga. Ef hæstv. ráðherra gæti rökstutt það hvers vegna nauðsynlegt er að lækka gjöld á þessa aðila væri gott að fá það hér fram.
Ég vil síðan spyrja hæstv. ráðherra út í þennan nýja skatt, urðunargjald. Þetta er nýr skattur eins og hæstv. ráðherra nefndi réttilega, hann á að skila 2,5 milljörðum árið 2021. Samtök iðnaðarins hafa gagnrýnt hann nokkuð harðlega og vilja meina að hættan sé sú að þetta verði bara hrein tekjuöflun fyrir ríkissjóð þar sem aðstöðu- og úrræðaleysi er fyrir hendi varðandi meðhöndlun á slíkum úrgangi. (Forseti hringir.) Ég bið um athugasemdir ráðherra vegna athugasemda Samtaka iðnaðarins.