breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2020.
Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra. Ég hef ákveðnar efasemdir um að nauðsynlegt sé að lækka eftirlitsgjaldið á viðskiptabankana. Nú stendur til að lækka bankaskattinn og ég hefði talið fulla þörf á því að áfram verði eðlilegt eftirlit með viðskiptabönkum í landinu. Þess vegna stingur þetta svolítið í stúf við það sem fram kemur annars staðar í þessu ákvæði.
Varðandi urðunarskattinn segir hæstv. ráðherra að verið sé að breyta hegðun fólks. En þetta eru engu að síður 2,5 milljarðar. Þetta er töluvert há upphæð og þess vegna er, held ég, nauðsynlegt að fá nánari útlistun á því hvernig framkvæmd þessa verður háttað, t.d. gagnvart fjölskyldum í landinu. Þetta eru 6.000 kr. á komandi fjárhagsári ríkissjóðs og verða væntanlega þá orðnar 12.000 kr. þegar innleiðingunni er lokið. Það eru töluverðir peningar fyrir efnalitlar fjölskyldur, svo að dæmi sé tekið.