150. löggjafarþing — 6. fundur,  17. sept. 2019.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2020.

2. mál
[15:11]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Það sem vekur athygli okkar Miðflokksmanna varðandi þetta frumvarp eru nýir skattar. Við í Miðflokknum erum ekkert sérlega hrifnir af nýjum sköttum, viljum miklu frekar bæta skattinnheimtu. Það kemur fram í fjárlagafrumvarpinu að álagðar skattkröfur upp á 17 milljarða verða afskrifaðar, þ.e. að þeir sem áttu að borga skatta upp á 17 milljarða kr. til ríkissjóðs koma ekki til með að borga þá. Fara þarf í saumana á þessu og vita hvort ekki sé hægt að bæta innheimtu.

Talið er að hér séu skattsvik upp á 80 milljarða á ári og jafnvel rúmlega það samkvæmt nýlegri skýrslugerð sem hefur verið kynnt. Ætlunin er að um það bil 200 millj. kr. fari í aukið skatteftirlit á komandi fjárhagsári sem á að skila um 250 millj. kr. í ríkissjóð. Það sýnir að það er langt í frá að verið sé að takast á við það alvarlega vandamál sem felur í sér þessa háu upphæð, um 80 milljarða, sem áætlað er að skili sér ekki í ríkissjóð.

Ég vil byrja á því að fara aðeins yfir nýjan skatt sem fjallað er um í 34. gr., skatt á flúoreraðar gróðurhúsalofttegundir. Þetta skilar töluverðum peningum í ríkissjóð en þessi skattur vekur upp ýmsar spurningar: Hve stór hluti skattsins er t.d. til kominn vegna þess að ríkissjóður ætlar að eyða þessum óæskilegu lofttegundum? Það þarf að rökstyðja þennan skatt, þ.e. fer hann í að eyða þessum lofttegundum? Afsláttur er veittur fyrsta árið upp á 50% og síðan kemur full innleiðing til. Þá spyr maður: Ætlar ríkissjóður þá að greiða með þessu fyrsta árið? Hver er raunkostnaðurinn við að eyða þessum flúoreruðu gróðurhúsalofttegundum? Maður spyr sig hve stór hluti skattheimtunnar er bein skattheimta til annarra nota, hversu dýrt er að eyða þessum tegundum, er tæknibúnaður til staðar o.s.frv. Mörgum spurningum er ósvarað og maður veltir fyrir sér hvort þetta komi til með að hafa áhrif á þann tækjabúnað sem hefur þessar lofttegundir — kemur hann til með að hækka? Koma öll kælitæki í landinu til með að hækka? Er það þannig? Eða á þetta bara við um kælitæki í iðnaði? Mér finnst þetta vera óskýrt og þarfnast frekari umræðu og frekari skýringa. Jú, þetta verður allt að tryggja. Það er lágmarkskrafa skattgreiðenda að þeir viti nákvæmlega í hvað skatturinn fer og hversu árangursrík skattheimtan er, hverju hún skili. Það finnst mér vera svolítið óskýrt í þessu, hér er nýr skattur sem þarfnast nánari umræðu og síðan umsagna hagsmunaaðila um með hvaða hætti hann leggst t.d. á fyrirtækin í landinu. Kemur þetta til með að hafa þung áhrif á fyrirtækin í landinu? Við stöndum frammi fyrir auknu atvinnuleysi, fyrirtæki eru jafnvel að segja upp starfsmönnum — getur þetta haft áhrif á afkomu fyrirtækjanna? Við þurfum að fá þessar upplýsingar.

Síðan er það urðunargjaldið sem ég kom inn á í andsvari við hæstv. ráðherra, sem er 6.000 kr. á hvert heimili. Það kemur væntanlega, að innleiðingu lokinni, til með að vera um 12.000 kr. á hvert heimili. Þessi skattur á að skila 2,5 milljörðum í ríkissjóð árið 2021. Ég nefndi það í andsvarinu að Samtök iðnaðarins hafi gagnrýnt þennan skatt og ég fagna því að hæstv. ráðherra kom inn á það að fara þyrfti vel yfir þetta í nefndinni, og ég tek heils hugar undir það. Fyrirtækin og heimilin í landinu vilja standa sig vel í úrgangsmálum en ef nægileg og nauðsynleg úrræði eru ekki til, svo að hægt sé að farga úrgangi með fullnægjandi hætti, verður ekki séð að þessi skattur leysi þá stöðu. Það er ákaflega nauðsynlegt að þetta verði rætt í nefndinni og ekki farið af stað með nýja skattheimtu sem kemur ekki til með að skila því sem ætlað er. En það er nú þannig með margt hjá þessari ríkisstjórn að hún hefur svolítið vaðið áfram í þessum grænu sköttum án þess að geta sagt til um árangurinn. Ég kem inn á það hér á eftir, sérstaklega varðandi kolefnisgjaldið.

Síðan eru hér nokkur athyglisverð atriði. Ég nefndi t.d. 10. gr. þar sem fjallað er um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Maður spyr: Hvaða kröfur gerir ríkissjóður á móti til starfseminnar þannig að eðlilegt samræmi sé á milli raunvaxtar, ef svo má orða það, eftirlitsins og rekstrarmarkmiða ríkissjóðs? Spurningin er: Getur Fjármálaeftirlitið rekið starfsemina hvernig sem er? Talað er um að gjaldið eigi að standa straum af kostnaði við eftirlitið. Að vísu er farið að ganga hér á eigið fé; það var ákvörðun ríkisstjórnarinnar að eftirlitið myndi ganga á eigið fé og það er verið að lækka gjöldin. Ég sé ekki tilgang með því að lækka þetta gjald á viðskiptabankana eins og ég nefndi í andsvari áðan, sérstaklega í ljósi þess að það á að fara að lækka bankaskattinn.

Ég vil nefna sérstaklega 21. gr. þar sem fjallað er um Ríkisútvarpið. Það á að hækka gjaldið sem nánast allir landsmenn greiða, að vísu ekki ungt fólk og eldri borgarar. Á fjárlögum fær Ríkisútvarpið rúma 4,8 milljarða og full þörf er á að fara að ræða það í þessum þingsal hvort eðlilegt sé að setja svo mikla fjármuni í þessa stofnun. Nú eru uppi hugmyndir um að taka Ríkisútvarpið út af auglýsingamarkaði, á þá ríkissjóður bara að greiða það? Þessi gjöld hækka um 120 millj. kr. á komandi fjárhagsári í frumvarpinu og ég held að það sé bara nútímakrafa að farið sé yfir það hvort almennur samfélagslegur vilji sé fyrir því að setja svo háa upphæð í þessa starfsemi, sem er jú á samkeppnisgrundvelli.

Að lokum vil ég koma inn á kolefnisgjaldið, þótt það sé ekki nefnt beint í frumvarpinu. Það var ákveðið í síðasta frumvarpi að það myndi hækka um 10% á þessu ári og svo um 10% á næsta ári. Tekjur af þessu gjaldi eru nú áætlaðar um 6,3 milljarðar eða 6.340 millj. kr. Um síhækkandi skattheimtu er að ræða á almenning og hinn almenna bifreiðaeiganda og ekki síst þá sem búa á landsbyggðinni þar sem notkun rafmagnsbifreiða er mjög takmörkuð. Svo má ekki gleyma því, eins og hefur komið fram í umræðunni, að það hafa ekki allir efni á því að kaupa sér rafmagnsbifreið og slíkar bifreiðar henta ekki öllum. Það er alveg ljóst að þetta gjald, sem hefur verið hækkað verulega í tíð þessarar ríkisstjórnar, bitnar verst á tekjulægstu hópunum og þeim sem hafa ekki efni á því að kaupa sér nýja rafmagnsbifreið eða bifreið sem losar minna.

Það er líka mjög athyglisvert að hæstv. umhverfisráðherra hefur viðurkennt að erfitt sé að meta árangurinn af þessari gjaldtöku. Það kom fram á fundi fjárlaganefndar, þegar umhverfisráðuneytið kom fyrir nefndina, að ráðuneytið getur ekki sagt til um árangurinn af þessu gjaldi. Það er auðvitað ámælisvert að ekki sé hægt að fá að vita hver árangurinn er af gjaldinu. Erum við að nota minna af dísilolíu, minna af bensíni í landinu? Við höfum engar tölur um það. Þetta er eitthvað sem þarf að liggja fyrir. Hæstv. fjármálaráðherra hefur sagt að árangurinn felist í því að verið sé að fjölga rafmagnsbílum mjög hratt. Jú, það er vissulega ánægjulegt að það sé gert en engu að síður verður að jafna þessum skatti niður á landsmenn með sanngjörnum hætti og það gerir þessi skattheimta ekki. Sumir þingmenn hafa einfaldlega glaðst yfir þessari skattheimtu sem mér finnst mjög einkennilegt. Hvernig getum við glaðst yfir einhverju sem er viðurkennt að ekki er hægt að meta árangurinn af? Það er alveg ljóst að fara þarf í saumana á þessu. Við vitum að bifreiðar losa um 6–8% af koltvísýringi en bifreiðaeigendur bera um 90% af þessum losunartengdu sköttum.

Hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra þyrfti líka að láta meta hvaða heimilissamsetningu hækkun kolefnisgjaldsins leggst einkum þungt á. Það er nauðsynlegt að fá að vita það. Maður spyr: Er sú hætta ekki fyrir hendi að verið sé að skattleggja tekjulægsta hópinn sem á öðrum stöðum í frumvarpinu er ætlunin að styðja við? Það er nauðsynlegt að fá það fram. Gjaldið er að hækka nú um áramótin um 10% og það þýðir hækkun á bensíni og dísilolíu. Það er mikil óvissa um olíuverð í heiminum, það hækkaði snarlega um 20% vegna atburða í Miðausturlöndum. Þetta er eitthvað sem er nauðsynlegt að fá fram, hver árangurinn er. Við þekkjum síðan þetta með kolefnislosunina og skurðina sem hefur verið nefnt. Ekki liggja fyrir neinar tölur um það hversu margir nýir skurðir eru grafnir á hverju ári. Það eru upplýsingar sem þurfa að liggja fyrir, þetta virðist allt vera meira og minna órannsakað.

Herra forseti. Vissulega eru loftslagsmálin alvarleg og við í Miðflokknum lítum þau alvarlegum augum eins og allir í þessum sal. Við leggjum hins vegar ríka áherslu á að það liggi fyrir hverjar séu réttu leiðirnar, hvaða leiðir beri árangur hvaða leiðir ekki. Það er sjálfsögð og eðlileg krafa að skattgreiðendur fái að vita, þegar á þá eru lagðir nýir skattar, hvort sem er urðunarskattar, kolefnisskattar eða skattar á flúoraðar gastegundir, lofttegundir, hvort það ber árangur. Ég er sannfærður um að almenningur myndi sýna því skilning, alla vega meiri skilning en nú er, að þessi skattheimta sé tekin upp ef menn vissu það fyrir víst hver árangurinn væri. En það liggur ekki fyrir. Það vantar yfirsýn að mínu mati hvað þetta varðar og ríkisstjórnin hefur bara vaðið áfram í þessum málum til að sýna að hún sé að gera eitthvað. Aðgerðirnar felast í skattahækkunum og enginn veit hver árangurinn er.

Ég verð að segja að lokum, herra forseti, að að öðru leyti er þetta hefðbundið frumvarp. Það er þó jákvætt að helstu gjaldahækkanirnar eru aðeins lægri en vísitöluhækkunin þannig að það er gott fordæmi og tengist náttúrlega lífskjarasamningunum. Ég held að það sé nauðsynlegt að þessi vinnubrögð verði viðhöfð í framtíðinni, það á ekki alltaf að vera ríkissjóður sem gengur fram fyrir skjöldu með að hækka gjöld um hver áramót sem síðar hækkar verðbólguna, hækkar lán heimilanna o.s.frv. Það er jákvætt og maður spyr: Er það einungis vegna þess að ákvæðið er í lífskjarasamningunum? Hefur ríkisstjórnin ekki frumkvæði að því sjálf að vera ekki alltaf að elta verðbólguna með öllum þeim hækkunum sem fylgja um hver áramót?

Að öðru leyti held ég að ég komi inn í þessa umræðu síðar og eftir því sem fram vindur.