150. löggjafarþing — 6. fundur,  17. sept. 2019.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2020.

2. mál
[15:35]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Hæstv. fjármálaráðherra hefur kynnt fyrir okkur áform um ótal hækkanir gjalda og skatta sem að miklu leyti munu auðvitað hafa áhrif á verðlag og verðbólgu, bæði bein áhrif vegna þeirra gjalda sem hér eru kynnt en einnig vegna þess, eins og reynslan sýnir, að hækkanir sem ríkið stendur fyrir leiða til hækkana á öðrum vörum og þjónustu svoleiðis að það verða ákveðin margfeldisáhrif af þessu. Nefnt hefur verið að gert sé ráð fyrir 2,5% hækkun krónutölugjalda og það sé lægra en sú verðbólga sem menn gera ráð fyrir og vísað er í lífskjarasamninganna svokölluðu. En þetta er engu að síður fráhvarf frá þeirri stefnu sem var mörkuð árið 2014 um að ríkið hætti að vera leiðandi í að hækka verðlag í landinu. Það er mjög óviðeigandi að ríkið sé alltaf fyrst til, um áramót, að hækka sín gjöld og sína þjónustu vegna væntinga um að verðbólga muni verða svo og svo mikil á komandi ári. Með því er ríkið auðvitað að gefa upp boltann með þær hækkanir sem fylgja í kjölfarið.

Það eru ekki aðeins hefðbundnar krónutöluhækkanir sem hafa verið kynntar hér heldur líka ýmis ný gjöld og nýir skattar og mikil áhersla er lögð á svokallaða græna skatta. Þetta á víst að vera eitthvað skárra en aðrir skattar og önnur gjöld sem leggjast á almenning vegna þess að þeir eru grænir, þeir eiga að hafa einhvern göfugan tilgang. En þá má eins spyrja um aðra skattlagningu: Á hún ekki almennt að hafa göfugan tilgang? Eða getum við átt von á því frá þessari ríkisstjórn að hún fari að leggja á sérstaka heilbrigðiskatta eða heilbrigðisgjöld, sérstaka velferðarskatta og þess vegna eigi menn ekki kvarta, þetta séu velferðarskattar sem muni nýtast fólki til aukinnar velferðar? Eða öryggisgjald, öryggiskatta, til þess að hægt sé að standa undir löggæslu og öryggi almennings?

Grænir skattar og græn gjöld eru bara skattar og gjöld og auknar álögur á almenning í landinu. Og það sem verra er, þeir í rauninni nálgast það að vera nefskattur og leggjast eðli máls samkvæmt hlutfallslega verst á þá sem eru tekjulægri því að meira og minna allir þurfa að greiða þessa refsiskatta, refsigjöldin sem grænu skattarnir í rauninni eru.

Þegar farið er í gegnum það frumvarp sem hæstv. fjármálaráðherra mælti fyrir áðan birtist auðvitað langur listi af ýmiss konar hækkunum og í XVII. kafla eru kynntar breytingar á lögum um úrvinnslugjald. Í 25. gr. segir að í stað 350 kr. komi 900 kr., í stað 700 kr. komi 1.800 kr.. Í 26. gr.: Í stað 16 kr. komi 28 kr. o.s.frv. Allt er þetta á sömu bókina lært. Úrvinnslugjald hvers konar mun hækka mjög verulega og það leggst á allt mögulegt sem fólk þarf að nota í sínu daglega lífi og dreifist þar af leiðandi víða um samfélagið og hefur áhrif mjög víða og áhrifin í öllum tilvikum eru auknar álögur á almenning í landinu.

Svo er það breyting á lögum um umhverfis- og auðlindaskatta sem kynnt er í XVIII. kafla, um skattlagningu á flúoraðar gróðurhúsalofttegundir, og svo urðunarskatt, sem er alveg dæmalaus hugmynd að mínu mati. Enn einn nýi græni skatturinn, enn einn refsiskattur, og í þessu tilviki stendur til að refsa fólki fyrir að kaupa sér hluti, kaupa sér jafnvel mat í umbúðum sem svo þarf að henda. Þetta er í rauninni skattur á það að vera til. Það var ákaflega áhugavert að heyra hæstv. fjármálaráðherra, formann Sjálfstæðisflokksins, lýsa því áðan að þetta væri ekki skattur sem væri beinlínis ætlaður til tekjuöflunar heldur til neyslustýringar. Mér þykir það tíðindum sæta að það sé orðin stefna Sjálfstæðisflokksins að ráðast í neyslustýringu, hafa vit fyrir fólki um hvað það kaupir, í þessu tilviki að reyna að fá það til að kaupa sem allra minnst með sérstöku refsigjaldi fyrir það að versla, fyrir það að kaupa hluti. En það sem gerir þetta nú enn sérkennilegra er að á sama tíma treystir ríkisstjórnin á aukna neyslu til að fjárlögin gangi upp. Menn leggja til refsingar við því að almenningur stundi neyslu, kaupi hluti, en ætlast um leið til þess að almenningur haldi áfram að kaupa hluti svo að fjárlögin gangi upp. Þetta er ekkert lítið gjald sem menn ætla að leggja á, 15 kr. á hvert kíló af urðuðum úrgangi. Eflaust verður það eins með þetta eins og aðra refsiskatta þessarar ríkisstjórnar og þeirrar síðustu, að þeir munu bara hækka jafnt og þétt og í hverju tilviki verði útskýrt fyrir okkur að það sé allt í lagi því að tilgangurinn sé svo göfugur.

Úrvinnslugjald á ýmsar umbúðir hækkar, plastumbúðir, og það sem vekur sérstaka athygli mína er að úrvinnslugjald á heyrúlluplast mun hækka úr 16 kr. á kíló í 28 kr. á kíló. Þetta er mjög umtalsverð hækkun, eins og reyndar aðrar hækkanir sem eru kynntar í þessu frumvarpi. En hvers vegna? Hvers vegna að refsa bændum sérstaklega fyrir að nota vöru sem þeir þurfa á að halda í sinni framleiðslu? Ég veit ekki annað en að bændur séu almennt duglegir við að halda utan um það plast sem þeir nota og koma því á réttan stað þegar það hefur lokið hlutverki sínu. Hvers vegna þá að refsa þeim? Er ætlast til að þeir noti minna af þessu plasti, þ.e. framleiði minna? Eiga þeir að framleiða minna hey? Er kannski ætlast til þess að þeir fari aftur að nota gömlu baggana? Hver er tilgangurinn með því að refsa bændum fyrir það að framleiða matvæli á Íslandi? Þetta er bara enn eitt dæmið um að það sé sótt að íslenskri matvælaframleiðslu og íslenskum landbúnaði úr öllum áttum sem í samhengi við umhverfismálin er sérstaklega einkennilegt vegna þess að fátt er betur til þess fallið að verja umhverfið og sérstaklega að bregðast við loftslagsmálum en að efla íslenskan landbúnað, innlenda matvælaframleiðslu og neyslu þeirrar framleiðslu hér á landi, ekki hvað síst. Þetta myndi ég telja að gengi beinlínis gegn markmiðinu um umhverfisvernd og feli ekki í sér annað en einhvers konar refsingu fyrir að standa í landbúnaði á Íslandi og framleiða matvæli.

Því miður er allt of margt af því sem hefur verið kynnt í dag sama eðlis. Þetta eru refsiskattar frekar en að þeir skili einhverjum jákvæðum árangri. Svo hefur verið nefnt, þó að það hafi ekki verið kynnt fyrir okkur þingmönnum enn þá, að von sé á, af lýsingum að dæma, hreint brjálæðislegum gjöldum á fólk fyrir að fara leiðar sinnar. Þau atriði sem ég vísa til eru reyndar ekki í fjárlagafrumvarpinu og það er í sjálfu sér sérkennilegt. Þetta hefur farið leynt þangað til að stóð til að kynna það í dag og þá er sá kynningarfundur settur á sama tíma og þessi þingfundur hófst. En miðað við lýsingar á því ætla menn að ganga enn lengra í að refsa borgurunum fyrir að vera til, fyrir að kaupa sér mat og hluti og fyrir að fara leiðar sinnar, með hreint ótrúlegri gjaldtöku sem á að renna í, að því er virðist, óendanlega dýrt og óhagkvæmt verkefni sem er kallað borgarlína. En nú er ég líklega fara aðeins út fyrir efnið og þó ekki því að þetta er allt á sömu bókina lært.

Niðurstaðan er sú að þrátt fyrir að ríkisstjórnin hafi kynnt þessi fjárlög sem skattalækkunarfjárlög er sú ekki raunin. Það er verið að auka álögur á almenning í landinu sem sést best ef menn líta á stóru myndina og á þá staðreynd að nú er gert ráð fyrir að skatttekjur ríkisins hækki líklega um á bilinu 40–50 milljarða á milli ára. Ótrúleg upphæð. Menn höfðu raunar gert ráð fyrir að skatttekjur myndu hækka meira á þessu ári, 2019, en hafa í ljósi efnahagsþróunin orðið að endurmeta það til lækkunar. Skatttekjurnar aukast ekki eins mikið og menn gerðu ráð fyrir. Samt gera menn ráð fyrir á næsta ári, þar sem áfram verða ýmis efnahagsleg vandræði til að takast á við, gríðarlegri hækkun skatttekna. Það er að hluta til vegna þessara gjaldahækkana sem hafa verið nefndar hér í dag. En það er auðvitað líka að hluta til vegna þess að ríkisstjórnin gerir ráð fyrir því að fólk muni ekki láta segja sér að það megi ekki ferðast á milli staða og megi ekki kaupa sér hluti, hvað sem líður refsisköttum.

Niðurstaðan, gangi þetta fjárlagafrumvarp eftir, verður sú að skatttekjur ríkisins hafi á tveimur árum, frá árinu 2018, hækkað um hvorki meira né minna en rúm 10%. Á tveimur árum hækka skatttekjur ríkisins um 10% og svo kynna menn þetta sem skattalækkunarfrumvarp. Alveg með ólíkindum, herra forseti.

Stóra myndin sýnir að ríkisstjórnin er að leggja auknar álögur á almenning í landinu. Væntanlega telur hún sig þurfa á því að halda til að geta staðið undir stækkandi bákni en það er líka mjög ámælisvert með hvaða hætti þetta er gert, með þessum nefskatti sem birtist í hvers konar grænum refsisköttum, með gjaldahækkunum sem gefa upp boltann fyrir verðlagshækkanir og hækkun vísitölu á nýju ári, með almennt neikvæðum hvötum fyrir atvinnulíf og almenning á Íslandi. Þetta eru með öðrum orðum, talandi um umhverfismál, herra forseti, ekki sjálfbær fjárlög.