150. löggjafarþing — 6. fundur,  17. sept. 2019.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2020.

2. mál
[15:47]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er kostulegt að menn lýsi því sem skattahækkunarþróun þegar tekjur ríkisins fara vaxandi með auknum umsvifum í hagkerfinu. Þannig var það t.d. þegar við hv. þingmaður vorum saman í ríkisstjórn að tekjur ríkisins voru mjög að vaxa en við vorum samt að lækka skatta. Skatthlutföllin voru lækkuð, við vorum að létta byrðar fólks og fyrirtækja. Það er alveg það sama sem á við hér og algjörlega fráleitt að halda því fram að þegar krónutölugjöld eru látin koma í humátt á eftir verðlagsþróun í landinu séum við að taka til baka allan ávinninginn af öðrum skattalækkunarfrumvörpum. Heildaráhrifin af tillögum ríkisstjórnarinnar eru til lækkunar á álögum, enda fengju þær tillögur ekki stuðning verkalýðshreyfingarinnar ef það væri á hinn veginn. Það er alveg augljóst.

En ég sagði ekki í framsöguræðu minni að ég teldi grænu skattanna góða þar sem þeir væru neyslustýring. Ég notaði aldrei það hugtak. Ég sagði hins vegar að við værum að reyna að hafa áhrif á hegðun og þá var ég ekki að vísa til neyslunnar heldur til þess að við næðum breyttri hegðun í umgengni um úrganginn. Þá erum við fyrst og fremst að vonast til þess að hann verði í auknum mæli flokkaður; að þegar við erum með sorp, úrgang sem hægt er að flokka, hvort sem eru umbúðir af neysluvöru eða annað, gerum við það og skilum honum til endurvinnslu en komum ekki með hann óflokkaðan til urðunar, sem er óæskilegra. Það er sú breytta hegðun sem ég er að tala um. Og í báðum þessum tilvikum, þegar við erum að ræða um grænu skattana í þessu máli, eru til staðar valkostir. Flúoreraðar gróðurhúsalofttegundir eru ekki þær einu sem koma til greina til að drífa áfram kælimiðlana heldur eru til aðrir kostir og við erum að reyna að fá fram þá breyttu hegðun að nota umhverfisvænni kosti og að menn séu frekar að flokka en urða til endurvinnslu. En ég hef margítrekað hér í framsöguræðu og í andsvörum að ég vil að nefndin fari mjög vel yfir það hvort við séum í stakk búin til að gera breytinguna sem er boðuð hér.