150. löggjafarþing — 6. fundur,  17. sept. 2019.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2020.

2. mál
[15:52]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er góð hugmynd að við skoðum frekari nýtingu úrgangs innan lands til uppbyggingar í þeim anda sem hv. þingmaður nefnir og ég held reyndar að við getum báðir, ef við eigum að flokka stjórnmálamenn — ekki til endurvinnslu en svona til að ná að skilgreina okkur — talist í flokki raunsæismanna í þessu. Aðalatriðið er að við erum að horfa á tölur sem sýna umfang urðunar á Íslandi sem veldur áhyggjum. Við sjáum í nágrannalöndum úrræði sem leysa af flúoreraðar gróðurhúsalofttegundir með nýrri og umhverfisvænni kostum og við viljum ýta undir þá þróun á Íslandi, þ.e. meiri flokkun og betri eða umhverfisvænni efni í kælimiðla.

Ég vil enn og aftur taka það fram að ég hef hlustað eftir athugasemdum sem komu fram við áformaskjalið og þar hefur margt verið sagt, bæði að við séum að fara fullbratt í þetta og að innviðirnir séu ekki til staðar til að fara í þetta umfangsmikla flokkun. Sveitarstjórnirnar hafa haft sjónarmið uppi um að þær ættu að fá heimildir til að leggja gjaldið á vegna þess að þær eigi að bera ábyrgð á þessu öllu saman. Það má spyrja sig hvort þá væri komin sú svipa í málið sem á þyrfti að halda, ef sá sem hefur ekki verið að leiða fram breytingu á nú að fá svipuna til að berja á sjálfum sér. Þetta eru allt atriði sem þarf að skoða. Aðalatriðið er að við þurfum að byrja á því að vera sammála um að umfang urðunar sé óeðlilega mikið miðað við þau úrræði sem eru til staðar og við erum ekki, fyrir kælimiðlana, í takt við tímann, borið saman við nágrannaþjóðir.