150. löggjafarþing — 6. fundur,  17. sept. 2019.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2020.

2. mál
[15:56]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Það er svo sem hægt að segja margt um þetta frumvarp, miklu meira en mann óraði fyrir að hægt væri að segja um níu blaðsíður af aðallega krónutölubreytingum. Það er fyrir margra hluta sakir ágætt en maður er aldrei fullkomlega ánægður. Það sem er beinlínis vont, svo maður byrji á því, eru nokkrar gjaldskrárhækkanir, þó færri en í fyrra, sem snúa að gjöldum sem eiga að byggja á raunkostnaði en ekki liggur fyrir neitt sem sýnir hver raunkostnaðurinn er. Ég hef talað um þetta oft áður. Það er auðvitað pólitísk ákvörðun að veita afslátt af raunkostnað í ákveðnum tilfellum, t.d. held ég að sé pólitísk sátt um að komugjöld á heilsugæslu eigi að vera fast og viðráðanlegt gjald, óháð þjónustustigi. En almennt séð ættu gjöld að byggja á fyrirliggjandi yfirliti yfir raunkostnað og meðan það yfirlit er ekki til mun ég alltaf leggjast gegn ákveðnum krónutöluhækkunum. Við verðum eiginlega að vita hvað hlutirnir kosta til að vita hvort það sé eðlilegt að þeir hækki.

Þrátt fyrir þetta almenna nöldur eru ekki allar hækkanir slæmar og það er þrátt fyrir allt nokkuð mikil pólitísk sátt á Íslandi um nauðsyn þess að taka loftslagsvá mjög alvarlega og grípa til aðgerða til að draga úr losun á gróðurhúsalofttegundum og annarri skaðlegri mengun. Megnið af frumvarpinu sem við ræðum hér snýr að umhverfistengdum gjöldum í samræmi við mengunarbótarregluna eða, með leyfi forseta, „polluter pays principle“. Mér finnst þetta vera góð regla að sumu leyti nema hvað hún hunsar betri skýringu sem er að verið sé að jafna út verðlag með hliðsjón af því sem kallað er, með leyfi forseta, „externalities“, sem mætti kannski þýða sem jaðaráhrif eða eitthvað þannig, þ.e. ekki allur raunkostnaður af öllu birtist í markaðsverði þar sem markaðsverð tekur sjaldnast mið af því t.d. hvað það kemur til með að kosta að hreinsa upp eftir að partýið er búið. Umhverfisgjöld af þessu tagi eru leiðir til að leiðrétta það lítillega.

Í frumvarpinu er aðallega beint sjónum að flúoreruðum gróðurhúsalofttegundum og þá aðallega brennisteinshexaflúoríði, nokkrum blöndum og HFC- og PFC-efnum. Það er jákvætt að við séum að taka á því. Áður hafa sum efni úr þessum flúoreraða flokki, t.d. CFC-efni, hreinlega verið bönnuð. Það er erfiðara að banna þessi efni en hin vegna þess að þau eru miklu gagnlegri. Því er ágætt að þetta gjald falli á þau, vegna þess að í einhverjum tilfellum eru aðrir möguleikar. Til að mynda er brennisteinshexaflúoríð um 23.900 sinnum öflugri gróðurhúsalofttegund en CO2 og þetta snýr ekki að hvarfgirni, eins og einhver talaði um hér í pontu um daginn, heldur um það hversu mikinn hitaþéttleika efnið hefur. Þetta efni er engu að síður rosalega mikilvægt, þ.e. brennisteinshexaflúoríð, í öryggiskerfum raforkudreifikerfisins, enda notað í háspennulekastraumsrofum, þ.e. háspennuútgáfunni af lekastraumsrofunum sem við erum með í húsunum okkar. Og að vísu í ýmsu öðru.

Eins og það dæmi sýnir eru mörg skaðleg efni mikilvæg fyrir samfélag okkar og við þurfum að finna góðar leiðir til þess að takmarka notkun þeirra og losun. Það er t.d. allt í lagi að brennisteinshexaflúoríð sé í einhverju lokuðu rými en ef það sleppur út undir bert loft er það slæmt. En í því tiltekna dæmi eru aðrir valkostir, svo sem loftpressu-, olíu-, lofttæmis- og koltvísýringsrofar. Gjald af þessu tagi getur orðið til þess að umhverfisvænni háspennulekastraumsrofar séu notaðar í þeim tilvikum þar sem það er yfir höfuð mögulegt. Það er ekki alltaf mögulegt að nota þá í staðinn en það er alla vega eitthvað sem er raunhæft að gera í mörgum tilfellum. Ég nefni þetta atriði, sem er tæknilegt og í rauninni núanserað atriði að hluta til, sem svar við þeim athugasemdum hv. þm. Birgis Þórarinssonar áðan að peningarnir þurfi að skila einhverju. Stundum eru svona gjöld hreinlega leið til að stýra neyslu burt frá verri aðferðum í átt að einhverri betri. Í þessu tilfelli er þetta neyslustýring gagnvart raforkufyrirtækjum.

Það sem mér finnst verra við þetta frumvarp er að á meðan hækkuð eru gjöld og skapaðir neikvæðir hvatar gagnvart því að menga virðist vera miklu minna gert til að skapa jákvæða hvata. Það eru nokkrir hvatar sem hef ég hef lesið um og mér dottið í hug að undanförnu sem ég held að mætti taka inn í þessa púllíu, t.d. erum við með virðisaukaskattsafslátt af rafbílum í dag og það er bara mjög fínt. En það er enginn sambærilegur virðisaukaskattsafsláttur af reiðhjólum og rafhjólum sem eru á margan hátt betri valkostur þegar þeim verður komið við. Slíkur afsláttur yrði til að styðja við orkuskipti með öðrum og að sumu leyti öflugri hætti og myndi falla að hugmyndum ríkisstjórnarinnar um að bæta reiðhjólasamgöngur sem hæstv. samgönguráðherra kynnti á dögunum. Ég held því að afsláttur af þessu tagi myndi kosta mjög lítið fyrir ríkissjóð en hafa mjög mikil áhrif.

Annar hvati tengist því að virðisaukaskattsfsláttur er í gildi gagnvart almenningssamgöngum sem fylgja föstu tímaplani annars vegar og leigubílaþjónustu hins vegar en skammtímaleiga á reiðhjólum og rafhjólum er hins vegar virðisaukaskattsskyld. Slík þjónusta þarf eðli málsins samkvæmt að vera mjög ódýr til þess að hún sé notuð í eðlilegum mæli. En í mínum huga er nálgunin við notkun slíkrar þjónustu eðlislíkari leigubílaþjónustu en bílaleigubílum, sem eru hin hliðstæðan sem maður gæti fundið. Það er enginn að leggja til að við förum út í virðisaukaskattsafslátt á bílaleigubílum. En ef þetta er líkara leigubílum í því hvernig almenningur notar þetta mætti athuga hvort slíkur afsláttur ætti við. Svo velti ég fyrir mér hvort það mætti ekki skoða hvort umhverfisáhrif virðisaukaskattsafsláttarins á tvinn- og tengiltvinnbílum séu jafn mikil og hefur verið talað um. Mig grunar að heildstæð umhverfisáhrif þess að rafmótor taki fyrstu nokkra kílómetrana eða hjálpi bílunum af stað eftir rautt ljós séu því miður ekki næg til að réttlæta áframhaldandi afslátt. Hérna er ég í rauninni að segja að kannski ættum við að sleppa virðisaukaskattsafslætti, vegna þess að dæmi eru um að tengitvinnbílar séu með um 30–50% minni CO2-losun í raunnotkun en sambærilegir bensínbílar. En það er samt töluverð losun á koltvísýringi og ég veit ekki hvort við viljum endilega styðja við það.

Kannski væri hægt að líkja þessu við svona „trickle down economics“, með leyfi forseta, eða brauðmolakenninguna, þar sem gengið er út frá því að ef vistvænni bílar bætast inn í hagkerfið muni ástandið smám saman lagast og þeir að lokum leka niður. Þetta er einn af þeim fáu stöðum þar sem brauðmolakenningin er ekki alveg 100% röng, sem er áhugavert fyrirbæri. En það væri betri nýting á fjármunum ríkisins að bjóða hærra urðunargjald fyrir mjög óvistvæna bíla, byrja í rauninni að éta þetta upp neðan frá. Til að mynda eru enn þá einhverjir bílar á vegunum sem losa vel rúmlega 170 eða 180 grömm af koltvísýringi á hvern ekinn kílómetra, þótt þeim fækki vissulega. En það eru kannski einhverjir bílar frá síðasta áratug síðustu aldar enn þá á veginum og ef við getum losnað við þá af veginum aðeins hraðar gæti það haft meiri áhrif en að reyna að fjölga hinum ofan frá. Það er kannski eitthvað til þess að athuga og ég vona að slíkar hugmyndir verði ræddar í efnahags- og viðskiptanefnd.

Eins og gefur að skilja hef ég misst mig aðeins út í umhverfisverndina, enda er hún langstærsti bitinn af þessu frumvarpi. Og það er kannski líka það sem í frumvarpinu felst, verið er að beita skattkerfinu í ákveðnum pólitískum tilgangi. Ég lýk yfirferð minni á því að segja að skattkerfið er ekki og verður aldrei hlutlaust. Það lýsir alltaf pólitískri sýn manna á það hvernig samfélagið eigi að vera uppbyggt. Það er algerlega eðlilegt að við ræðum a.m.k. hvernig hvatar eigi að vera til staðar og hvernig þeir eigi að virka, jafnvel ef við látum það vera að fara of djúpt ofan í almenna umræðu um uppbyggingu skattkerfisins vegna þess að það hvort og hvernig tekjuskattur og virðisaukaskattur eða fjármagnstekjuskattur er er alveg jafn mikil spurning um það hvernig samfélag við viljum byggja upp og hitt.

Ég sé hreinlega enga ókosti við það að við beitum þessu skattkerfi. Nota bene: Skattar hafa í rauninni nánast eingöngu það hlutverk að koma í veg fyrir of mikla verðbólgu, ef maður skoðar nútímahagfræði. Þá er það bara spurning hvar við viljum að kostnaðurinn komi niður. Þessi gjöld eru leið til að láta kostnaðinn fara á staði þar sem okkur hefur fundist einhverju ábótavant og eðlilegt að við höldum því áfram vegna þess að það eru vissulega stór vandamál sem við stöndum frammi fyrir í samfélaginu sem verða ekki leyst með því að bíða og vona.

Ég hugsa að niðurstaðan sé þessi og lýk máli mínu á því að segja að ég er mestan part sáttur við þetta frumvarp. Auðvitað má þó laga það aðeins til og ég hlakka til að vinna það nánar í efnahags- og viðskiptanefnd.