150. löggjafarþing — 6. fundur,  17. sept. 2019.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2020.

2. mál
[16:15]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Við ræðum frumvarp um breytingu á ýmsum lögum vegna fjárlaga. Ég vil hefja mál mitt á að þakka hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra fyrir hans yfirferð, aðallega yfir fyrirhugaðar skattahækkanir sem verið er að boða. Hæstv. ráðherra boðar hér nýjungar í að berja í allar glufur svo að svokallaðir grænir skattar verði alltumlykjandi og ekkert þar undanskilið. Sannleikurinn er sá, herra forseti, að það hafa í raun afskaplega fáir eitthvað við það að athuga að við reynum með sköttum að draga úr allra handa sóðaskap, þar með að minnka útblástur gróðurhúsalofttegunda til að koma í veg fyrir óhóflega hlýnun jarðar. Því mælir enginn í mót. Það sem ég hef hins vegar við þetta að athuga er að það verður að vera einhver skýr stefna á bak við slíka skattlagningu. Það þurfa að vera einhverjar ráðagerðir um hvert best sé að ráðstafa skattinum svo að það komi málefninu sjálfu til góða. Skattlagningin þarf að vera byggð á einhverri atburðarás þar sem unnt er að sjá fyrir hvernig áhrifin verða til góðs fyrir málefnið. Skattlagning eins og þessir grænu skattar má ekki bara vera enn ein skattlagningin á íbúa landsins en það er einmitt tilfinningin sem margir fá þegar sumir þessara skatta eru skoðaðir ofan í kjölinn.

Herra forseti. Athugasemdir mínar ganga út á það að í fyrsta lagi liggja í sumum tilvikum ekki fyrir rannsóknir á áhrifum sumra þessara skatta og ríkið virðist í öðrum tilvikum vera að leggja á skatta þó að aðkoma ríkisins sé engin í að ráðast að vandamálinu sjálfu. En vegna þess að allar aðrar þjóðir leggja á þessa skatta verðum við að gera það líka þó að aðstæður séu hér öðruvísi og jafnvel þó svo að ríkið komi stundum hvergi að málum. Þegar svo er fær maður það óneitanlega á tilfinninguna að hér sé einungis enn einn skatturinn; hugmyndin var svo góð, og kom að utan, að við getum bara alls ekki sleppt þessu tækifæri.

Herra forseti. Ég ætla að hefja umfjöllun mína á kolefnisgjaldinu en gert er ráð fyrir að gjaldið hækki um 10% og hefur það þau áhrif að bensín og olía hækka í kjölfarið og verður það til þess að þessar hækkanir fara beint út í verðlag og vísitölu og hækka þannig verðtryggð lán landsmanna. Eftir þessa hækkun verða tekjur ríkissjóðs af kolefnisgjaldi um 6,4 milljarðar. Gaman væri að fá að sjá tölur yfir hvaða kostnað skuldarar þessa lands mega bera vegna væntanlegrar hækkunar kolefnisgjaldsins, þar með hækkanir á verðtryggðum húsnæðislánum landsmanna. Hvaða kostnað munu skuldarar þessa lands þurfa að bera, fyrir utan að greiða gjaldið sjálft, vegna beinna áhrifa af hækkun á verðtryggðum húsnæðislánum landsmanna? Hversu mörg hundruð milljónir eru það? Liggur það fyrir?

Það er ekki að tilefnislausu sem ég nefni rannsóknarleysið að baki mörgum af þessum hækkunum því að á fundi með fjárlaganefnd staðfestu fulltrúar umhverfisráðuneytisins að ekki væri unnt að staðfesta árangur af álagningu þessa gjalds. Þetta er það sem ég kalla rannsóknarleysi. Gjaldið er lagt á og síðan vona menn að fleiri kaupi sér umhverfisvænni bifreiðar, rafmagnsbíla, en það eru engar rannsóknir sem liggja að baki um hvaða áhrif gjaldið sjálft hafi á þessa þróun. Þetta er þróun sem víða má sjá í nágrannalöndum. Það er enginn að gera lítið úr loftslagsvánni en hér virðist um hreina tilraunastarfsemi að ræða og skattlagningin er sett í svona indælan og fagran búning og tilgangurinn látinn réttlæta aukna skattlagningu. Þannig er verið að leggja nýja og aukna skatta á bifreiðaeigendur, útgerðir, bændur og aðra landsmenn og það er hreinlega alls ekki vitað hverju þeir skili hvað varðar yfirlýstan tilgang gjaldsins, nefnilega umhverfislega. Við vitum mætavel, herra forseti, hvað þetta kostar, hverju þetta skilar í kassann, 6,4 milljörðum.

Ég ætla síðan að fjalla um væntanlegan urðunarskatt en þar gilda svolítið sömu sjónarmið og með kolefnisgjaldið — en þó ekki. Þessi nýi skattur, urðunarskatturinn, er reifaður í því frumvarpi sem við ræðum hér um breytingu á lögum um umhverfis- og auðlindaskatta, nr. 129/2009. Staðreyndin er sú að ríkið hefur engan kostnað af urðun. Í forsendum með hinum nýja skatti er ekki að finna neinar fyrirætlanir í þá átt að skatturinn eigi að gera aðrar leiðir en urðun vænlegri, nefnilega brennslu, endurvinnslu eða flokkun. Skatturinn á ekki að renna í þetta, einkaaðilar reka ekki urðunarstaði og því er einungis verið að skattleggja almannaþjónustu sem sveitarfélögin veita íbúum sínum og ríkisvaldið hefur þar enga aðkomu að — nema núna með því að skattleggja. Það er einkennilegt að leggja á urðunarskatt en á sama tíma er fyrirhugað að banna urðun. Þetta fer illa saman. Ég myndi t.d. telja að jafnframt framlagningu þessa máls um urðun væru lagðar fram einhverjar fyrirætlanir, ráðagerðir um að fyrirhuguðum urðunarskatti sé t.d. ætlað að gera brennslu úrgangs mögulega, t.d. með því að reisa hér fullkomna sorpbrennslustöð. Hér á landi hefur magn úrgangs farið vaxandi síðustu ár. Árið 2016 nam magn úrgangs sem féll til yfir milljón tonnum. Í ársskýrslu Umhverfisstofnunar 2017 kemur fram að staðan sé orðin sú að hver landsmaður losi sig að jafnaði við 660 kíló af heimilisúrgangi á ári. Hluti þess fer í endurvinnslu. Það sem eftir stendur er að mestu urðað á tilteknum urðunarstöðum víðs vegar um landið.

Það sem ég er að benda á, herra forseti, er að það verða að vera einhver úrræði, ef á að leggja á urðunarskatt, og aurinn sem kemur inn fyrir skattinn verður að ganga til þess að efla þau úrræði, bjóða upp á ný úrræði, eins og ég hef nefnt, brennslu; reisa hér fullkomna sorpbrennslustöð eins og fleiri ræðumenn hafa komið inn á fyrr í dag. Af hverju eru ekki ráðagerðir um að auka flokkun, auka endurvinnslu? Menn hafa orðað það þannig að ýta eigi undir aukna endurvinnslu. En á hverra höndum er sú endurvinnsla? Hún er á höndum sveitarfélaga og þessi skattur ætti þá að einhverju leyti að renna til sveitarfélaganna til að efla einmitt þau úrræði. Urðun úrgangs getur valdið grunnvatnsmengun um langa framtíð og eitrað jarðveg, auk þess sem mikið landrými fer undir landfyllingar. Síðustu ár hefur heimilisúrgangur ekki verið fluttur frá Íslandi til brennslu í öðrum ríkjum en spilliefni, t.d. olíuúrgangur, hefur verið sendur til annarra ríkja til endurnýtingar, t.d. til notkunar sem eldsneyti á annan hátt til orkuframleiðslu. Nýlega hafa komið upp hugmyndir um að sigla með sorp til Svíþjóðar og fleiri landa til brennslu í svokölluðum hátæknisorpbrennslustöðvum. Er þessi skattur, herra forseti, kannski ætlaður til þess? Er hann kannski ætlaður til að niðurgreiða eða greiða undir siglingar með sorp til útlanda til brennslu? Mér hugnast það ekki.

Herra forseti. Ég held að svona lítil þjóð eins og Ísland eigi að ganga fram með góðu fordæmi og standa framarlega í því að rækja sínar skyldur gagnvart umhverfinu og endurnýta, flokka, brenna síðan það sem eftir er hér á landi en ekki sigla með það til annarra landa til að brenna þar. Það eru komnar sorpbrennslustöðvar erlendis sem eru útbúnar mjög háþróaðri tækni til að brenna úrgang svo að af hlýst mjög lítil mengun núorðið. Auk þess er hægt að nýta varma bæði til upphitunar eða til rafmagnsframleiðslu. Sem gott dæmi um þetta vil ég nefna að á Norðurlöndunum eru víða slíkar brennslur og sú nýjasta er í Kaupmannahöfn, inni í miðri borginni. Hún er að brenna úrgangi sem er næstum helmingi meiri en allur úrgangur sem fellur til á Íslandi. Þessi brennsla er í miðri Kaupmannahöfn, herra forseti. Eru einhverjar ráðagerðir um byggingu slíkrar sorpbrennslustöðvar og að gjaldið fari t.d. þangað og hún verði reist fyrir þessa skattpeninga? Svo er ekki að sjá. Ég hef ekki séð þær. Eru fyrirætlanir um að styðja verkefni um að reisa hér fullkomnar endurvinnslustöðvar eða flokkunarstöðvar og láta skattinn renna til þeirrar starfsemi en ekki bara beint í ríkissjóð? Ég hef ekki séð það, herra forseti. Eða á skatturinn kannski að fara í að niðurgreiða útflutning á sorpi til útlanda og eyðingu þar?

Herra forseti. Ég er áhugamaður um að greina ætterni hinna svokölluðu umhverfisskatta, hvort um raunverulegt skref í átt til betri umgengni við náttúruna sé að ræða, og þar með að sporna við útblæstri gróðurhúsalofttegunda — eða eins og ég hef hér farið yfir og margt bendir til, því miður, herra forseti, bara enn eina skattlagninguna. Ég á eftir að minnast á svokallaðan heyrúlluskatt sem einnig má finna í frumvarpinu, sem er viðamikið, en í því er tilgreindur fjöldi gjalda sem hækka — og aðallega hækka, held ég — og eitt af því er í 26. gr. Þar er verið að hækka svokallað úrvinnslugjald á heyrúllurplast, það mun hækka úr 16 kr. á kílóið í 28 kr. Hvað er það mikil hækkun? Það er 75% hækkun. Hver verða áhrif hækkunar á þessum skatti? Er búið að rannsaka það? Ég held að það sé nauðsynlegt, herra forseti, að kalla eftir nánari áætlun um áhrif þessa gjalds sem hækkar svo mikið á landbúnað. Er slík áætlun fyrir hendi? Liggur hún fyrir? Eiga bændur að taka upp eldri vinnsluaðferðir? Og hvað verður um allt þetta plast? Fáum við kannski sem afleiðingu af þessari miklu hækkun, 75% hækkun, að sjá að þetta verði úti um allar koppagrundir, að menn skili ekki þessu plasti heldur safni því upp heima fyrir? Eru það æskileg áhrif af því þegar menn hækka skatta svona mikið eins og virðist vera með heyúlluskattinn?

Ég fagna því auðvitað, herra forseti, að verið sé að lækka einhverja skatta, t.d. tekjuskatt einstaklinga. Ég fagna því. Ég geri mér grein fyrir að einhvers staðar verður að afla tekna fyrir ríkissjóð. Ég geri mér fulla grein fyrir því — en að skýra skatta hinum ýmsu nöfnum eins og hér virðist vera, græna skatta, þegar í mörgum tilvikum liggja hvorki fyrir rannsóknir né fyrirætlanir né áætlanir um áhrif þeirra eða hvort ríkisvaldið ætli að gera eitthvað varðandi úrlausn þeirra verkefna sem liggja þar fyrir.