150. löggjafarþing — 6. fundur,  17. sept. 2019.

tekjuskattur og staðgreiðsla opinberra gjalda.

3. mál
[16:31]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt og lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda sem felur í sér umfangsmikla kjarabót til almennings. Allt frá árinu 2013 hefur lækkun skatta á einstaklinga verið forgangsmál stjórnvalda. Á tímabilinu 2014–2018 voru skattar lækkaðir um nærri 25 milljarða á ársgrundvelli og jukust ráðstöfunartekjur heimilanna til samræmis við það. Í aðdraganda kjarasamninga kynnti ríkisstjórnin enn umfangsmeiri lækkun tekjuskatts og breytingar á skattkerfinu. Alls munu breytingarnar fela í sér 21 milljarðs kr. minni álögur á heimilin þegar þær verða að fullu innleiddar. Það samsvarar um 10% af tekjum ríkisins af tekjuskatti einstaklinga. Þessi lækkun mun koma að fullu fram á tveimur árum í stað fyrri áætlana um innleiðingu á þremur árum. Tekjuskattslækkunin léttir til muna skattbyrði lágtekju- og millitekjuhópa og eykur ráðstöfunartekjur. Stuðlar hún þannig að efnahagslegum stöðugleika vegna tímasetningarinnar í hagsveiflunni. Þessu til viðbótar er með þessu frumvarpi verið að auka verulega við framlög til barnabóta sem koma ekki síst tekjulægra launafólki til góða.

Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á skattalögum sem eru hluti af forsendum fjárlaga fyrir árið 2020. Breytingarnar eru ferns konar. Í fyrsta lagi er lagt til að komið verði á fót þriggja þrepa tekjuskattskerfi, í tveimur skrefum, með nýju lágtekjuþrepi í stað tveggja þrepa eins og nú er. Í öðru lagi er með bráðabirgðaákvæði til tveggja ára lögð til breyting á því hvernig fjárhæð persónuafsláttar tekur breytingum árlega þar sem gert var ráð fyrir því að skattleysismörk hækki í hlutfalli við vísitölu neysluverðs. Í þriðja lagi er tillaga um framlengingu til tveggja ára á bráðabirgðaákvæði sem kveður á um breytingu fjárhæðarmarka tekjuskattsstofns við vísitölu neysluverðs í stað launavísitölu. Í fjórða lagi er lagt til að neðri tekjuskerðingarmörk barnabóta verði hækkuð.

Ég ætla nú að víkja að einstökum þáttum sérstaklega, fyrst tekjuskatti einstaklinga. Meginatriði tekjuskattsbreytinganna eru þau að tekið verður upp þriggja þrepa tekjuskattskerfi. Nýtt grunnþrep verður 5,5% lægra en núverandi grunnþrep og verður grunnþrep hins nýja kerfis 31,44%, en þá er tekið mið af meðalútsvari. Á móti verður nýtt miðþrep 1% hærra en núverandi grunnþrep.

Skattleysismörkum verður haldið óbreyttum að raunvirði með því að lækka persónuafslátt samhliða innleiðingu nýs þreps en þau munu eftir innleiðingu breytinganna taka mið af verðbólgu og framleiðniaukningu vinnuafls. Ég vil aðeins segja um þennan þátt að það er risastór breyting að fá skattleysismörkin og persónuafsláttinn á nýtt viðmið. Það hefur verið umdeilt að þrepamörkin hafa fylgt launavísitölu á meðan persónuafslátturinn hefur fylgt neysluvísitölu. Þegar laun hækka umfram vísitölu neysluverðs í landinu má segja að yfir tíma felist í því ákveðið skattskrið. Hefur það verið þrætuepli í samskiptum vinnumarkaðar og stjórnvalda. Þar fyrir utan er það á vissan hátt dálítið óheppilegt að það séu ólíkar viðmiðanir um þessi efni. Það leiðir auðvitað líka af þessu að ef menn hefðu notað neysluvísitöluna á þrepamörkin fælist líka í því skattskrið og hér er sem sagt komin tillaga í þessu frumvarpi um að við tökum upp nýtt viðmið fyrir bæði tilvikin, bæði persónuafsláttinn og þrepamörkin, sem er framleiðniaukning vinnuafls. Ég verð að lýsa mikilli ánægju með að það sé þokkaleg sátt um þessa breytingu. Yfir tíma ætti þetta að vera trygging fyrir því að skattskrið eigi sér ekki stað. Auðvitað erum við þá að horfa til meðaltalsþróunar yfir tíma en að jafnaði ættu launin ekki að taka breytingum umfram það sem framleiðniaukning býður upp á. Ekkert af þessu kemur þó í veg fyrir að menn taki sérstakar ákvarðanir um að stilla persónuafslætti í einhverja tiltekna fjárhæð eða ef því er að skipta fjárhæðarmörkunum, en þetta er betri árleg viðmiðunartala en sú sem við höfum notað undanfarin ár að mínu áliti.

Þróun skattleysis- og þrepamarka mun þá sem sagt fylgja þessum viðmiðum og það tryggir að sjálfvirk sveiflujöfnun kerfisins dreifist jafnar á alla tekjuhópa.

Tekjuskattsbreytingarnar verða gerðar í skrefum eins og áður er komið fram og gert er ráð fyrir að þær hækki ráðstöfunartekjur heimilanna um 21 milljarð kr. þegar þær verða að fullu komnar til framkvæmda árið 2021. Með tilkomu þriggja þrepa kerfis verður jöfnunarhlutverki kerfisins viðhaldið og í nokkuð ríkari mæli en verið hefur í gegnum þrepamörk skattkerfisins fram til þessa en sérstakt ákall var um það frá vinnumarkaðnum við þær aðstæður sem höfðu skapast þar að tryggt væri að svigrúm til skattalækkana myndi einkum nýtast neðri enda tekjustigans. Með þessum breytingum er ótvírætt að því markmiði er náð og við höfum séð að eftir að megininntak þessarar útfærslu var kynnt tókust mjög mikilvægir kjarasamningar á Íslandi.

Með þeirri skattalækkun sem fylgir þessum breytingum munu ráðstöfunartekjur tekjulægstu hópanna aukast um rúmlega 120.000 kr. á ári, talið frá 2021. Áfangar næsta árs munu þýða 7,5 milljarða kr. lækkun á tekjuskatti einstaklinga það árið. Sú lækkun eykur ráðstöfunartekjur heimilanna og mun að einhverju leyti birtast í neyslusköttum. Það er ekki gott að segja og erfitt að mæla fyrir fram en kemur á heppilegum tíma í hagsveiflunni þegar lítið svigrúm var til launahækkana. Þetta eru svolítið afturhlaðnir kjarasamningar hvað það snertir og kallast vel á við annað það sem er að gerast, t.d. við framkvæmd peningastefnunnar. Þetta er þá rúmlega 10.000 kr. skattalækkun á mánuði fyrir þá sem eru með um 325.000 kr. á mánuði í tekjur og skattalækkunin nær niður að skattleysismörkunum sem munu fylgja verðlagi næstu árin og dreifast upp tekjustigann en þó þannig að áhrifin fjara út eftir því sem ofar er komið í tekjustiganum.

Ég vil víkja að þeim breytingum sem lagðar eru til á barnabótakerfinu sömuleiðis hér. Heildarútgjöld vegna barnabóta árið 2020 eru áætluð 13,1 milljarður kr. á verðlagi ársins og er það hækkun um 1 milljarð kr. á milli fjárlagaára. Þessi hækkun leiðir af fyrirhuguðum breytingum á viðmiðunarfjárhæðum barnabótakerfisins og þær breytingar eru hluti af aðgerðum ríkisstjórnarinnar til að létta undir með lágtekjufólki í tengslum við lífskjarasamninginn svokallaða sem undirritaður var á árinu. Breytingarnar sem lagðar eru til í frumvarpinu eru þær að skerðingarmörk tekjustofns barnabóta hjá einstæðum foreldrum hækka úr 3,6 milljónum á ársgrundvelli í 3,9 milljónir, þ.e. úr 300.000 í 325.000 kr. á mánuði. Það þýðir t.d. að fyrir einstætt foreldri sem hefur allar sínar tekjur af launavinnu og greiðir 4% skylduiðgjald í lífeyrissjóð er engin skerðing á barnabótum upp að 338.542 kr. í mánaðarlaun. Skerðingarmörk tekjustofns barnabóta hjá sambúðaraðilum um hækka hins vegar á ársgrundvelli úr 7,2 millj. kr. í 7,8 millj. kr., þ.e. úr 600.000 kr. á mánuði í 650.000 kr. á mánuði. Þetta þýðir í sambærilegu dæmi að ef sambúðaraðilar hafa allar sínar tekjur af launavinnu og greiða 4% skylduiðgjald í lífeyrissjóð er engin skerðing á barnabótum hjá sambúðaraðilum upp að 677.084 kr. í samanlögð mánaðarlaun.

Ég hef farið yfir helstu þætti frumvarpsins. Þetta snýr að tekjuskatti einstaklinga í fyrsta lagi. Síðan eru skerðingarmörkin fyrir barnabæturnar í öðru lagi og útfærslur á þessu. Ég ætla aðeins að víkja að því hér undir lokin að við höfum í þeim forsenduútreikningum sem við höfum unnið með á þessu ári og sérstaklega í tengslum við fjármálaáætlunina gert ráð fyrir að það gæti komið til breytinga á samsköttun hjóna, sérstaklega varðandi samnýtingu þrepanna. Sú umræða um undirliggjandi forsendur hefur auðvitað haft áhrif og hefur aðeins smitast inn í umræðu um þessar skattbreytingar. Í þessu frumvarpi er ekki gerð nein tillaga um breytingar á samsköttun hjóna sem þýðir í fyrsta lagi að hjón og sambúðaraðilar munu áfram geta látið samskatta sig og þannig nýtt persónuafsláttinn. Það var svo sem aldrei í umræðunni að gera breytingar á því. Varðandi samnýtingu þrepanna er lagareglan algjörlega óbreytt en það mun hafa viss áhrif á samnýtingu þrepa að tekið er upp nýtt neðsta skattþrep. Það mun sömuleiðis hafa áhrif á samnýtingu þrepa að gerð er prósentubreyting á miðþrepinu.

Þetta vildi ég hafa sagt. Áfram verður full samsköttun hjóna heimil og samnýting þrepa sömuleiðis. Ef við skoðum sérstaklega alla þá sem hafa nýtt saman skattþrep maka eru heildaráhrifin af frumvarpinu til lækkunar á sköttum þrátt fyrir þessi áhrif sem ég var að tína til.

Ég hef farið yfir það að heildaráhrifin af frumvarpinu eru metin upp á 21 milljarð kr. frá árinu 2021. Um 7,5 milljarðar skila sér til heimilanna á næsta ári í skattalækkun. Það þarf að taka tillit til þess að að hluta til nýtist sú skattalækkun vegna ársins 2020 ekki fyrr en við álagningu árið 2021 fyrir árið 2020 þegar endanlegur skattstofn sambúðaraðila liggur fyrir. Það hefur áhrif á mat næsta árs fyrir tekjur ríkisins, þ.e. ekki er alveg augljóst að saman fari áhrifamatið fyrir heimilin og á tekjur ríkissjóðs vegna þess hvernig uppgjörið fer fram eftir að álagning tekjuskatts einstaklinga á sér stað.

Heildarútgjöld barnabóta árið 2020 eru áætluð 13,1 milljarður kr. á verðlagi ársins. Það er hækkun eins og áður segir um 1 milljarð. Samandregið er alveg ljóst að verði þetta frumvarp óbreytt að lögum mun það auka ráðstöfunartekjur heimila verulega, sérstaklega ungs fólks og tekjulágra. Þetta skiptir miklu vegna þess hvar við erum stödd í hagsveiflunni. Þetta er mjög stór þáttur í aðgerðum stjórnvalda til að stuðla að sátt á vinnumarkaði sem mun vonandi leiða af sér þann stöðugleika sem hagkerfið þarf til að ná viðspyrnu að nýju. Áhrif frumvarpsins á stjórnsýslu ríkisins og stofnanir þess eru hverfandi. Ríkissjóður verður af nokkrum tekjum, a.m.k. til skemmri tíma litið, en við erum ekkert sérstaklega góð í að meta heildaráhrifin á tekjur ríkisins af málum eins og þessu. Við höfum tilhneigingu til að reyna að skoða þetta í tvívíðu módeli eins og ég hef stundum sagt. Hins vegar verða fleiri krónur til ráðstöfunar hjá heimilunum sem mun hafa einhver óbein áhrif hjá ríkinu.

Ég vil sömuleiðis taka fram að með þriðja skattþrepinu er visst afturhvarf frá breytingu sem gerð var fyrir nokkrum árum þegar við felldum niður miðþrepið. Ég verð að halda því til haga að það var auðvitað fyrst og fremst skattalækkunaraðgerð og hún hafði kannski þau ágætu áhrif við þær aðstæður sem þá voru uppi á vinnumarkaði að styðja við gerð kjarasamninga með öðrum hætti en mest var þörf á núna. Þá fengu ýmsir millitekjuhópar tiltölulega lítið út úr sjálfum kjarasamningunum og sú aðgerð að afnema miðþrepið á þeim tíma var við þær aðstæður mjög mikilvæg. Þrátt fyrir að nú sé að nýju tekið upp þriðja skattþrepið verður hægt að segja það sama um þessa skattbreytingu og hina fyrri að hún er fyrst og fremst til skattalækkunar.

Ég segi þá bara undir lok þessarar umræðu, virðulegi forseti, að ég býð fram alla mögulega aðstoð í fjármálaráðuneytinu til að meta áhrif málsins og fara yfir ólíkar sviðsmyndir ef á því þarf að halda. Við höfum gert allt sem í okkar valdi stendur til að skýra áhrifin eins vel og kostur er og ég legg til, virðulegi forseti, að þessu frumvarpi verði vísað til efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að lokinni þessari umræðu.