150. löggjafarþing — 6. fundur,  17. sept. 2019.

tekjuskattur og staðgreiðsla opinberra gjalda.

3. mál
[16:48]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra þessa yfirferð og fagna þeim breytingum sem hér er verið að boða á tekjuskattskerfinu. Ég veit að þriðja þrepið er flokki hæstv. ráðherra ekkert endilega mikið að skapi en mér sýnist þessi leið skila tilætluðum árangri þó að ýmsar leiðir aðrar hafi verið kynntar til leiks að sama marki, þ.e. að skila ábatanum til tekjulægstu hópanna.

Ég velti hins vegar aðeins fyrir mér þeim breytingum sem boðaðar eru á barnabótakerfinu um leið og ég fagna viðbótarfjármagninu í barnabætur. Það hefur viljað brenna við, sérstaklega þegar tekjur eru vaxandi, að við brennum upp barnabótakerfið og látum það ekki fylgja launaþróun. Það hefur verið viðloðandi undanfarin ár. En mér sýnist þegar ég horfi á áhrifin nú að hægt hefði verið að gera talsvert betur í að beina þessu sérstaklega að tekjulægstu hópunum. Ég bendi t.d. á að hjón með tvöfaldar tekjur á við einstætt foreldri fá 60.000 kr. hækkun á lágmarksviðmiðunarfjárhæðunum meðan einstætt foreldri fær 30.000 kr. hækkun. (Forseti hringir.) Væri ekki hægt, að mati hæstv. ráðherra, að lagfæra þetta?