150. löggjafarþing — 6. fundur,  17. sept. 2019.

tekjuskattur og staðgreiðsla opinberra gjalda.

3. mál
[16:50]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alltaf matsatriði hvernig maður á að útfæra svona breytingar. Fyrir nokkrum árum fórum við þá leið að hækka heildarfjárhæðina í barnabætur en á sama tíma auka við skerðingarnar. Það tryggði verulega hækkun neðst í tekjustiganum en minni hlutfallslega ofar í honum. Ég er almennt þeirrar skoðunar, og um þetta hefur lengi verið deilt hér í þinginu, að stuðningskerfi á borð við barnabætur eigi fyrst og fremst heima hjá þeim sem eru fyrir neðan meðaltekjur og kannski í kringum þær. En svo eru aðrir sem vilja engar skerðingar á barnabætur og líta á þetta sem hluta af skattkerfinu, að það sé bara eins og skattafsláttur á móti barneignum og þannig sé viðurkenndur kostnaður við að eiga börn o.s.frv. En ég er enn að vinna með kerfi sem styður mest við þá sem eru neðst og það er alltaf (Forseti hringir.) spurning hvort maður hafi gengið nógu langt eða ætti að vera með aðra útfærslu.