150. löggjafarþing — 6. fundur,  17. sept. 2019.

tekjuskattur og staðgreiðsla opinberra gjalda.

3. mál
[16:51]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Við höfum einmitt verið gagnrýnt fyrir nákvæmlega þetta, að við séum eiginlega mitt á milli, þetta sé ekki almennur stuðningur til barneigna en heldur ekki stuðningur sem fyrst og fremst miði að tekjulægstu hópunum. Má t.d. benda í því samhengi á að við byrjum að skerða strax við lágmarkstekjur fullvinnandi einstaklinga. Það má alveg velta fyrir sér: Er ekki við hæfi að láta óskertar barnabætur ná eitthvað aðeins hærra upp tekjustigann en bara að allra tekjulægsta hópnum? Ég held að lágmarkslaun á vinnumarkaði verði um 335.000 á næsta ári samkvæmt kjarasamningum. Það er sú fjárhæð sem við erum að byrja að skerða barnabætur við. Þannig að ég kalla eftir því og vona að um það geti náðst samstaða í efnahags- og viðskiptanefnd, mun alla vega sjálfur beita mér fyrir því, að við tökum þetta kerfi aðeins til endurskoðunar svo að barnabætur geti verið óskertar aðeins hærra upp stigann en svo verður að vera brattari skerðing upp að millitekjum eða eitthvað þess háttar til að beina þeim stuðningi fyrst og fremst að þeim tekjulægstu.