150. löggjafarþing — 6. fundur,  17. sept. 2019.

tekjuskattur og staðgreiðsla opinberra gjalda.

3. mál
[16:56]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég er svo sem ekkert að taka Styrktarsjóð Háskólans sérstaklega fyrir en mér finnst þetta áhugavert í landi þar sem 1% ríkustu landsmanna á meiri hreinar eignir samkvæmt skattframtölum en 80% landsmanna. Þetta er hópurinn sem getur borið hærri skatta. Sömuleiðis sjáum við að 5% ríkustu landsmanna eiga svipað mikið af hreinum eignum og hin 95% þannig að það er sá hópur sem ég tel að geti borið þyngri skatta, sérstaklega í því árferði sem er fram undan. Við sjáum að einungis 2% fjölskyldna greiddu fjármagnstekjuskatt vegna söluhagnaðar af hlutabréfum þannig að það er vel hægt að afmarka þessa skattlagningu gagnvart þeim hópi sem hefur hvað mest í þessu landi. Þess vegna finnst mér það mjög sérkennileg pólitík ef við ætlum sérstaklega að verja þennan hóp, ríkasta hóp Íslendinga, fyrir komandi verðbólguskoti. Það væri mjög sérkennilegt að Vinstri græn myndu styðja það en kemur kannski ekki á óvart frá Sjálfstæðismönnum.

Ég hvet hæstv. ráðherra frekar til að innleiða hér hærra frítekjumark, það er sanngjarnara og hann getur náð skattalækkunum með því. Þá skattalækkun getur Samfylkingin stutt.