150. löggjafarþing — 6. fundur,  17. sept. 2019.

tekjuskattur og staðgreiðsla opinberra gjalda.

3. mál
[17:01]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt að við gerðum ráð fyrir því að hann yrði frystur í krónutölu í fyrri útfærslum en með því að við tókum stærra skref til lækkunar á þessu nýja neðsta þrepi reyndist nauðsynlegt að draga aðeins úr persónuafslættinum í krónutölu, sem sagt að lækka hann, m.a. til að fjármagna aðgerðirnar. Aðgerðin var sérstaklega sniðin að því að ná hámarksáhrifum skattalækkunarinnar þar sem mest var eftir því kallað. Ég tel að það sé að takast vel.

Hvert er hlutverk persónuafsláttarins? Hann kallast á við skattþrepin. Skattþrep og skattprósentur annars vegar og síðan hins vegar persónuafslátturinn mynda skattleysismörkin. Skattleysismörkin munu fylgja verðlagi á næstu árum og ég tel að það sé bara eðlileg þróun. Þegar spurt er um hlutverkið og stærra samhengi hlutanna myndi ég vilja vísa til skýrslu sem kom út í fyrra. Axel Hall var formaður í sérstökum starfshópi sem tók saman þá skýrslu. (Forseti hringir.) Ég myndi segja að þar komi fram að við séum með vel samansett skattkerfi í dag.