150. löggjafarþing — 6. fundur,  17. sept. 2019.

tekjuskattur og staðgreiðsla opinberra gjalda.

3. mál
[17:03]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Persónuafslátturinn einn og sér hefur enga sjálfstæða þýðingu án þess að hann sé settur í samhengi við skattþrepin og skattprósenturnar. Þannig fæst í raun og veru nákvæmlega sama niðurstaðan varðandi frítekjumarkið með því að hafa persónuafsláttinn lægri og neðsta þrepið um leið lægra og með því að hafa persónuafsláttinn hærri og láta hann hafa staðið í sömu krónutölu en byrja í hærri prósentu. Þetta samspil býr til frítekjumarkið þannig að mér finnst við ættum að vera að beina sjónum okkar að frítekjumarkinu.

Það sem ég átti við þegar ég var að vísa í skýrslu Axels Halls og þeirrar nefndar sem hann stýrði var að þar er hægt að sjá tölur um þátttöku í staðgreiðslukerfinu, hversu hátt hlutfall þeirra sem hafa tekjur á Íslandi greiða tekjuskatta yfir höfuð. Þetta hlutfall hefur farið hækkandi á Íslandi en er bara á eðlilegum stað í dag í samanburði við Norðurlöndin. Með því að það eru fleiri (Forseti hringir.) þátttakendur í tekjuskatti í dag en áður var geta prósenturnar almennt verið lægri. (Forseti hringir.) Það held ég að sé jákvætt.