150. löggjafarþing — 6. fundur,  17. sept. 2019.

tekjuskattur og staðgreiðsla opinberra gjalda.

3. mál
[17:06]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að ég fari með rétt mál þegar ég segi að í gegnum söguna hafi þessi krónutölugjöld oftast verið látin fylgja verðlagi. Í minni tíð í fjármálaráðuneytinu hefur hins vegar almennt eingöngu átt sér stað hækkun sem samsvarar verðbólgumarkmiði Seðlabankans. Það þýðir að þessi gjöld hafa uppsafnað yfir tíma öll verið að lækka að raungildi, sérstaklega þegar við tökum með í reikninginn að eitt árið vorum við með enga hækkun. Þegar spurt er: Væri ekki best að hækka þessi gjöld ekki neitt? get ég svo sem svarað: Jú, það væri best að þurfa ekki að hækka þessi gjöld en það er einhver fórnarkostnaður í því. Þá er bara spurning hvar menn ætla að ná tekjunum annars staðar fyrir útgjöldunum, m.a. til almannatrygginga og annarra fjárfrekra útgjaldaliða sem þarf að fjármagna. Þannig að ég held að ég og hv. þingmaður gætum verið lengi sammála ef við héldum áfram umræðu um hvaða skatta væri gott að losna við en einhvers staðar verður sú umræða að taka endi (Forseti hringir.) og við þurfum að fara að ræða um hvað sitji þá eftir.