150. löggjafarþing — 6. fundur,  17. sept. 2019.

tekjuskattur og staðgreiðsla opinberra gjalda.

3. mál
[17:08]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar við skoðum heildarfjárhæðina sem fer til barnabóta held ég að við hljótum að geta verið sammála um að hér er um mjög stóran og mikilvægan lið í fjárlögunum að ræða. Þetta er á annan tug milljarða. Þetta eru rúmlega 10 milljarðar sem um er að ræða, allt að tólf, hækkar um milljarð núna á milli ára og það fer beint í vasa barnafjölskyldna í landinu. Þetta finnst mér vera aðalatriði málsins, hversu mikill stuðningur þetta er þegar heildartalan er skoðuð. Hvernig við eigum síðan nákvæmlega að stilla hana af varðandi skerðingarmörk og skerðingarprósentur og hvenær eigi að byrja að skerða og hversu langt upp launastigann barnabætur eigi að dreifast — þar er hægt að hafa fleiri en eina skoðun. Ég vara bara við því að jaðarskattar verði of háir og tel að þetta sé gott (Forseti hringir.) kerfi sem við séum að styrkja enn frekar.