150. löggjafarþing — 6. fundur,  17. sept. 2019.

tekjuskattur og staðgreiðsla opinberra gjalda.

3. mál
[17:10]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Áherslumálin í frumvarpinu eru fyrst og fremst vegna ákvarðana sem voru ekki teknar í þessum sal eða af hálfu ríkisstjórnarinnar einnar. Þessar aðgerðir, skattbreytingar og innspýting í barnabótakerfið, eru fyrst og fremst vegna samkomulags sem gert var af hálfu aðila vinnumarkaðarins. Margar af tillögunum þegar kemur að barnabótum hafa beinlínis verið felldar, ekki einu sinni, ekki tvisvar, ekki þrisvar heldur fjórum sinnum í þessum sal síðan ríkisstjórnin tók við völdum. Aðilar vinnumarkaðarins ná samkomulagi, stilla ríkisvaldinu upp við vegg og ná þeim árangri að innleiða þriðja skattþrepið sem ég held að sé fagnaðarefni, ná fram einni hækkun, smávægilegri að mínu mati, í barnabótakerfið, sem maður fagnar auðvitað, maður fagna hverri krónu í það kerfi. En frumkvæðið að pólitískri ákvarðanatöku þar um liggur ekki hjá ríkisstjórninni heldur hefur hún þvert á móti sýnt í verki að hún reynir að koma í veg fyrir að tekin séu svipuð skref og hér er gert, svo því sé haldið til haga. Hæstv. fjármálaráðherra hefur ítrekað talað gegn því að hafa þrjú skattþrep sem hér er verið að innleiða. Við höfum oft tekist á um hversu miklu við ættum að bæta í barnabótakerfið.

Mig langar í þessari stuttu ræðu minni um skattamál að nefna þrjár aðrar tekjuleiðir sem ég held að ríkisstjórnin ætti að skoða þegar kemur að því að mæta þeirri niðursveiflu sem er nú þegar hafin og við þurfum að bregðast við með einhverjum hætti ef ekki á að koma til niðurskurður í velferðarþjónustunni. Ég hef fyrr í dag nefnt nokkur þessara sviða. Mig langar að byrja á að nefna fjármagnstekjuskattinn sem ég gat um í andsvari áðan við hæstv. ráðherra. Fjármagnstekjuskatturinn er mikilvægur skattstofn. Hann á ekki að vera of hár, að sjálfsögðu ekki. Fjármagnið á að geta margfaldað sig og unnið fyrir sér og við viljum hafa sanngjarnt skattkerfi. Ég og Samfylkingin teljum enga sérstaka ástæðu til að hafa lægstu skattprósentu fjármagnstekna á Íslandi af öllum Norðurlöndunum. Ég tel enga sérstaka ástæðu til að verja þann hóp sem fyrst og fremst greiðir fjármagnstekjuskatt því að langstærstur hluti landsmanna greiðir engan fjármagnstekjuskatt út af frítekjumarkinu. Út af frítekjumarkinu losna mjög margir við að greiða fjármagnstekjuskattinn, margir sem þó hafa einhvers konar fjármagnstekjur. Hann getur verið heppilegur skattstofn til ná til þeirra einstaklinga sem eiga mjög miklar eignir, eiga hlutabréf, arð, hafa vaxtatekjur o.s.frv. Ég hef ítrekað bent á í þessum ræðustól að hér er talsverður eignaójöfnuður. Ég veit að tekjujöfnuður á Íslandi er talsverður en ég fókusera á eignaójöfnuðinn. Ég hef ítrekað bent á tölur sem koma frá Hagstofunni og benda til þess að tekjuójöfnuðurinn sé talsverður. Ég vona að þingmenn fyrirgefi að ég að endurtaki mig með að 1% landsmanna eiga meiri hreinar eignir en 80% eiga og 5% eiga svipað og 95%.

Við sjáum sömuleiðis hvernig þróunin er. Tæplega helmingur allra hreinna eigna sem varð til á árinu 2016 rann til ríkustu 10% landsmanna. Tæplega helmingurinn af hreinum eignum sem urðu til árið 2016 fór til 10% landsmanna. 11% af nýjum auð sem varð til 2011–2016 rann til ríkasta 1% landsmanna. Sé litið til tekna kemur fram að heildartekjur, með fjármagnstekjum, hjá tekjuhæstu 5% landsmanna voru 23% af heildartekjunum. Samkvæmt upplýsingum frá Creditinfo eiga einungis tíu — takið eftir því — eignamestu einstaklingarnir tæplega þriðjung alls eigin fjár í íslenskum félögum sem eru í höndum einstaklinga. Tíu einstaklingar eiga einn þriðja af eigin fé í íslenskum félögum sem eru í höndum einstaklinga. Samkvæmt nýrri skýrslu frá Oxfam er Ísland langneðst allra Norðurlandanna þegar kemur að aðgerðum til að berjast gegn ójöfnuði. Þess vegna eigum við að taka umræðu um hvort við náum ekki að berjast gegn ójöfnuði og á sama tíma tryggja eðlilega fjármögnun ríkissjóðs með því að hækka fjármagnstekjuskattinn.

Tekjuliður númer tvö sem mig langar að nefna sömuleiðis, ætti ekki að koma neinum á óvart. Það eru aukin auðlindagjöld, og þá á ég bæði við veiðileyfagjöld og gjöld af orkunni okkar. Við sjáum að sjávarútveginum hefur sem betur fer gengið mjög vel. Að sjálfsögðu vill maður að sjávarútveginum gangi vel. Við eigum að vera stolt af íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum og þau hafa staðið sig afskaplega vel í alþjóðlegum samanburði. Meira að segja LÍÚ hefur talað um að undanfarin ár hafi verið gullaldarár íslensks sjávarútvegs. Gullaldarár er orðalag sem LÍÚ notaði á sínum tíma um tímabilið frá 2009–2016. Ef við lítum á hagnaðartölur í íslenskum sjávarútvegi eru geigvænlegar hagnaðartölur í íslenskum sjávarútvegi á þessu tímabili. Íslenskur sjávarútvegur hagnaðist um 340 milljarða á sjö árum, frá 2019–2016. Arðurinn sem fer til eiganda fyrirtækjanna hefur sömuleiðis verið mjög mikill. Á þremur árum var hann 40 milljarðar. Nú í vikunni komu fram tölur um að hagnaður Samherjasamstæðunnar, að hluta til erlendis, var 112 milljarðar á átta árum. Stór hluti af þeirri starfsemi byggir á nýtingu á sameiginlegri auðlind sem þjóðin á. Sjávarútvegsfyrirtækin eiga ekki fiskinn í sjónum samkvæmt lögum og það er mjög sérkennilegt að af lykilauðlind þjóðarinnar sé ríkissjóður tilbúinn að fá einungis um 1% af tekjum sínum fyrir nýtinguna. Það er sömuleiðis mjög áhugavert að sjá að þegar þessi ríkisstjórn tók við voru veiðileyfagjöldin rúmlega 11 milljarðar en núna stefna þau í 7 milljarða. Það er lækkun upp á 40%. Veiðileyfagjöld hafa lækkað um 40% á síðan ríkisstjórnin tók við og það er mjög áhugaverð forgangsröðun.

Ég vil líka til að setja þessar tölur í samhengi nefna að veiðileyfagjaldið sem veitir aðgang að einum bestu sjávarfiskstofnum jarðarinnar nálgast nú tóbaksgjaldið í upphæðum. Ef við gerum annan samanburð greiða stúdentar á Íslandi í skólagjöld og innritunargjöld um einn fimmta af því sem íslensk sjávarútvegsfyrirtæki greiða fyrir aðgang að íslenskri sjávarauðlind. Þetta er því tekjuleið að okkar mati fyrir ríkið að skoða.

Í þriðja lagi er það auðlegðarskatturinn og hann tengist þeim eignaójöfnuði sem ég gat um áðan. Við eigum að skoða auðlegðarskattinn aftur, gera hann hugsanlega tekjutengdan til að tryggja að fólk sem t.d. býr í stóru húsi, hvernig sem það er, en er með litlar tekjur sé undanskilið. Þarna er einnig tekjustofn sem ég teldi að íslensk stjórnvöld ættu að skoða. Eins og ég hef sagt áður vaxa peningarnir ekki á trjánum, þeir verða til hjá fólkinu og fyrirtækjum í landinu og með einhverjum hætti þurfum við að geta fjármagnað þá velferð sem langflestir ef ekki allir flokkar eru sammála um að hér þurfi að halda uppi.

Þetta eru þrír tekjustofnar sem eru algerlega hunsaðir af hálfu ríkisstjórnarflokkanna og ég held að við ættum að skoða þá.

Varðandi tekjuskattinn tek ég undir orð annarra þingmanna, ég held að skynsamlegt sé að hafa þriðja þrepið og það er skynsamlegt að reyna að forgangsraða þannig að sem mest fari til þeirra sem minnst hafa. Ég ætla bara að treysta á að útreikningar ráðherra séu réttir hvað það varðar. Það er hins vegar áhugavert að verkalýðshreyfingin, ASÍ, hefur gagnrýnt að tekjuskattslækkunin komi seint en við látum það liggja á milli hluta í bili.

Hvað varðar barnabæturnar er viðbótin sem ríkisstjórnin hefur verið að stæra sig af 0,1% af fjárlögunum. Það er innspýtingin í barnabótakerfið. Ég held að við getum gert talsvert betur en það. Ef við lítum á barnabótakerfið í heild sinni er þetta rúmlega 1% af fjárlögunum. 99% af því sem við erum að tala um fer ekki í barnabætur. Aftur held ég að við ættum að spýta meira í þetta kerfi. Þetta er mikilvægur hluti af velferðarkerfi okkar og „targeterar“ hóp sem verður fyrir ákveðnum kostnaði á ákveðnu skeiði í lífi sínu. Við þurfum að huga að betri stuðningi við barnafjölskyldur. Við sjáum að það er dýrt að búa á Íslandi og ég held við eigum að einbeita okkur að því að reyna að gera Ísland ódýrara, hvort sem það er í gegnum bótakerfið eða gegnum neytendaverð og innflutning og annað slíkt, því að þetta er atriði sem setur íslenskar fjölskyldur í mjög erfiða stöðu við að ná endum saman.

Herra forseti. Ég læt þetta duga en hlakka til frekari umræðu um skattamál í allan vetur.