150. löggjafarþing — 6. fundur,  17. sept. 2019.

tekjuskattur og staðgreiðsla opinberra gjalda.

3. mál
[17:20]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að gera athugasemd við þessa nálgun á auðlindagjöld á sjávarútveg og benda á að það er ekki hægt að segja sem svo að einu tekjur ríkisins af nýtingu auðlindarinnar séu þessir sértæku skattar. Þessir sértæku skattar eru algerlega einstakir. Þeir eru hvergi annars staðar lagðir á með sambærilegum hætti. Víða um lönd eru dæmi um stórkostlegar niðurgreiðslur til sjávarútvegsins á meðan við höfum sértækan skatt í gildi á Íslandi og það umtalsverðan. Það er ekki hægt að gera lítið úr því að hér séu lagðir á sértækir skattar umfram aðrar atvinnugreinar upp á um 10 milljarða og efna síðan til umræðu um skatttekjur ríkisins af nýtingu sameiginlegrar auðlindar á grundvelli þeirrar einu sértæku skattlagningar. Hvað með stimpilgjöldin? Hvað með kolefnisgjöldin? Hvað með öll eftirlitsgjöldin? Hvað með tekjuskatt fyrirtækjanna sjálfra? Hvað með tryggingagjaldið hjá öllum starfsmönnunum? Hvað öll þjónustukaupin? Hvað með virðisaukaskattinum? Hvað með útflutningstekjurnar? Hvert er virðið af því?

Það er nánast látið að því liggja að fórnarkostnaður okkar af því að hætta bara sjávarútvegi væri 10 milljarðar. Það væri sem sagt sértæki skatturinn sem við töpuðum. Það er ekki hægt að ræða um eina atvinnugrein og skattlagningu á hana með svona afmörkuðum hætti. Í raun og veru er hv. þingmaður að fara inn á umræðu um það hvort við eigum að taka gjöld fyrir aðgang að takmarkaðri sameiginlegri auðlind með þessum hætti eða einhverjum allt öðrum hætti eins og oft er rætt um hér í þingsal og það er alveg verðug umræða. En ég verð að gera athugasemdir við að þessu sé stillt þannig upp að eini ávinningur þjóðarinnar af nýtingu auðlindarinnar sé þessir sértæku skattar.