150. löggjafarþing — 6. fundur,  17. sept. 2019.

tekjuskattur og staðgreiðsla opinberra gjalda.

3. mál
[17:27]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil fyrst leiðrétta ráðherrann. Veiðileyfagjaldið er ekki 10 milljarðar, það er 7 milljarðar. Það var 10–11 milljarðar þegar ríkisstjórnin tók við völdum en það er búið að lækka það um 40% niður í 7 milljarða. Mig langar að setja þessa tölu aftur í svolítið samhengi. Í frumvarpi sjávarútvegsráðherra sem laut að lækkun veiðileyfagjalda komu mjög áhugaverðar upplýsingar fram sem mig langar að deila í þessu svari mínu. Í frumvarpinu kemur fram að veiðileyfagjald eigi m.a. að mæta kostnaði ríkisins vegna sjávarútvegsins, svo sem vegna rannsókna, stjórnunar og eftirlits. Ríkið verður fyrir ýmsum kostnaði vegna sjávarútvegsins. Þetta er Hafró, eftirlit o.s.frv. Kostnaður ríkisins sem verður vegna greinarinnar er 5 milljarðar. Eftir standa 2 milljarðar sem er nettógjaldið sem rennur til eiganda auðlindarinnar. 2 milljarðar er ekki há upphæð, herra forseti, fyrir aðgang að þessum gjöfulum fiskimiðum. Ef við tökum kostnaðinn sem við verðum fyrir bara við að fylgjast með og stjórna þessari auðlind eru 2 milljarðar eftir. Það er tvöfalt hærri upphæð en ríkisvaldið fær vegna umferðarsekta.

Við hljótum að geta fundið eitthvert fyrirkomulag þar sem þessi vel heppnaða atvinnugrein getur lagt meira af mörkum með þessum sértæka hætti. Ég veit að þetta er mikilvæg atvinnugrein og við eigum að hlúa að henni og hún á að vera frjáls og standa vel. En 2 milljarðar í nettógjald til eiganda auðlindarinnar, þjóðarinnar er einfaldlega allt of lágt. Við hljótum að geta fundið einhverja leið, hvernig sem við gerum það, til að fá frekari tekjur af nýtingu sjávarauðlindanna og sömuleiðis á þetta við um aðrar sameiginlegar auðlindir í eigu þjóðarinnar. Þá er ég fyrst og fremst að líta til orkunnar.