150. löggjafarþing — 6. fundur,  17. sept. 2019.

tekjuskattur og staðgreiðsla opinberra gjalda.

3. mál
[17:55]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það má færa fyrir því mjög góð rök, og ég hef gert það hér fyrr á árum, að eitt skattþrep með tiltölulega háum skattleysismörkum teikni upp skattbyrðilínu sem geti verið ágætlega sanngjörn. Það er skattbyrðilínan sem í raun og veru á endanum segir alla söguna. Það eru kostir og gallar við allar útfærslur. Í þessu tiltekna máli sem við erum að ræða er kosturinn fyrst og fremst sá að skattbyrðin lækkar hjá öllum. Í öðru lagi erum við komin með nýtt viðmið fyrir persónuafslátt og fjárhæðarþrepamörk sem er líka mjög gott mál. Í þriðja lagi er það auðvitað sjálfstætt markmið að styðja við kjarasamningagerðina. Maður getur ekki leyft sér að lifa bara einangrað í eigin draumaheimi um hvernig lög og reglur eigi að líta út. Maður verður að finna eitthvert jafnvægi við umhverfið. Og þó að það megi færa fyrir því rök að fleiri skattþrep séu upp að einhverju marki til þess fallin að flækja skattkerfið verður því ekki beinlínis haldið fram að það hafi fyrir fram verið mjög einfalt, þ.e. að það sé einfalt fyrir fólk að finna út úr því, vitandi hver persónuafslátturinn er og hver tekjuskattsprósentan er og síðan skattprósentan sem þá tekur við, hver skattbyrðin er hjá hverjum og einum, sérstaklega þegar við förum að tala um bótakerfin og skerðingarreglur sem bætast þar við, í vaxtabótakerfinu og barnabótakerfinu o.s.frv. Þetta eru einfaldlega flókin kerfi og það er ekki allt leyst með því að hafa tvö skattþrep en ekki þrjú. Það bætir ekki miklu við í flækjustigi hlutanna sem birtist okkur þegar við rýnum (Forseti hringir.) í bóta- og skattkerfin heilt yfir, með útsvari og öllu saman. En ég hef lagt áherslu á að álagningarseðils ríkisskattstjóra reyndi að gera þetta eins einfalt og hægt er.