150. löggjafarþing — 6. fundur,  17. sept. 2019.

sérstakur skattur á fjármálafyrirtæki.

4. mál
[18:23]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Ég ætla að fara nokkrum orðum um þetta mál sem lýtur að lækkun bankaskatts og ég ætla að setja það í pólitískt samhengi, í samhengi við fjárlagafrumvarpið sem verður rætt hér í allan vetur. Ég átta mig vel á því að þessi bankaskattur er sérkennilegur skattur og það kemur að því að hann eigi sinn lokapunkt, að hann falli á einhverjum tímapunkti niður. Ég velti því hins vegar fyrir mér, herra forseti, hvort þetta sé rétt forgangsröðun í ljósi þeirrar stöðu sem ríkissjóður er í um þessar mundir. Við sjáum að við erum hætt að upplifa hagvöxt og erum farin að upplifa samdrátt. Það gefur á ýmsa þætti velferðarkerfisins og ég held að við ættum að styðjast við þennan skatt, alla vega í bili, á meðan staðan er slík. Við sjáum að lækkun þessa skatts kostar um 8 milljarða kr. þegar hún er komin til framkvæmda. Á fjórum árum eru þetta 18 milljarðar, og það er margt sem ríkissjóður getur gert fyrir 18 milljarða á þeim tíma.

Mér finnst þetta, eins og margt í frumvarpinu sem við ræðum í dag og ekki síst á tekjuhlið þess, sérkennileg forgangsröðun. Mig langar aðeins að setja þetta í samhengi við hvað við blasir í öðrum þáttum ríkisfjármálanna og ekki síst á gjaldahliðinni. Eins og ég hef ítrekað sagt þurfum við að fjármagna þau gjöld sem við höfum verið að tala fyrir, allir flokkar, og peningarnir þurfa að koma einhvers staðar að. Ég held að við ættum því ekki að samþykkja þetta frumvarp, ég held að ríkissjóður gæti nýtt þennan pening eins og sakir standa, sérstaklega ef við förum yfir nokkra þætti sem finna má í fjárlagafrumvarpinu sjálfu.

Í fjárlagafrumvarpinu sem var rætt hér í síðustu viku, og verður rætt ítarlega á vettvangi fjárlaganefndar, er enn sérstök aðhaldskrafa lögð á sjúkrahús, öldrunarstofnanir og skóla. Voru þeir flokkar sem eru í ríkisstjórn virkilega kosnir til að standa fyrir slíku? Landspítalanum er enn og aftur haldið í fjárhagskröggum. Að óbreyttu stefnir hann í 4 milljarða kr. halla á þessu ári. Fjármunir eru beinlínis lækkaðir til framhaldsskóla milli ára. Það kemur mjög skýrt fram í töflu á bls. 120 að beinlínis er um lækkun að ræða til framhaldsskólanna þegar litið er til heildarútgjalda til þeirra, og það er mjög erfitt að sjá margboðaða sókn í menntamálum í slíku. Fjármunir til háskólanna með LÍN eru lækkaðir milli ára og er það réttlætt í frumvarpinu með því að LÍN hafi fengið ofgreiðslu. En ég velti hins vegar fyrir mér, herra forseti, hvort ekki hefði verið í lagi að leyfa málaflokknum að halda þeim fjármunum sem ákveðið hafði verið að setja í hann því að þörfin er svo sannarlega fyrir hendi. Við þessa ákvörðun, þar sem við erum að lækka heildarfjármuni í háskólastigið, í það málefnasvið, hljótum við að vera að fjarlægjast loforð stjórnarsáttmálans um að ná sama hlutfalli fjármuna til háskólastigsins og önnur OECD-ríki gera annars vegar og Norðurlöndin hins vegar. Í stjórnarsáttmálanum, ég leit á hann í morgun, kemur mjög skýrt fram að fjármögnun háskólastigsins eigi að vera sambærileg því sem önnur OECD-ríki verja til háskólastigsins. Við uppfyllum ekki það loforð.

Enn er afnám krónu á móti krónu skerðingar til öryrkja ófjármagnað og ef maður lítur á einstaka þætti sem lúta að öryrkjum eru framlög til réttindagæslu fatlaðra beinlínis lækkuð í frumvarpinu. Aukningin til aldraðra er fyrst og fremst til komin vegna fjölgunar í þeim hópi og það er engin sérstök innspýting til þessa hóps samfélagsins.

Fjármunir til þróunarsamvinnu eru lækkaðir, m.a. vegna flutnings fjármuna til varnarmála í staðinn, og sömuleiðis er ríkisstjórnin að nýta sér þá stöðu að með lægri þjóðartekjum lækka framlög til þróunarmála. Varla eru breiðu bökin þarna, herra forseti.

Umbætur í velferðarmálum, svo sem lenging fæðingarorlofs um einn mánuð og örlítil hækkun barnabóta — eins og ég gat um fyrr í dag er hækkun í barnabótum 0,1% af fjárlögum — eru fyrst og fremst til komnar vegna aðgerða aðila vinnumarkaðarins en ekki vegna frumkvæðis stjórnarflokkanna. Enn vantar SÁÁ sárlega meira fjármagn en þeir fjármunir sem fjárlaganefnd bætti við í fyrra virðast vera dottnir út. Við þurfum að skoða þetta sérstaklega vel á vettvangi fjárlaganefndar. Endurhæfingarþjónusta fær lækkun milli ára í frumvarpinu og aftur verður það að teljast skrýtin forgangsröðun stjórnarflokkanna. Almenn löggæsla fær lækkun milli ára, ef við brjótum þetta niður.

Umhverfismálin eiga að vera risastórt forgangsmál ríkisstjórnarinnar og eru það að hennar eigin mati en hún setur um 2% af fjárlögum til umhverfismála; 98% fara ekki í umhverfismál þannig að maður veltir fyrir sér hversu ofarlega umhverfismálin eru á dagskrá þessarar ríkisstjórnar.

Ástæðan fyrir því að ég nefni þessa þætti og að ég gagnrýni hér fjárlagafrumvarpið sem við höfum verið að ræða og var rætt í síðustu viku, er sú að ég set þetta í samhengi við það að í dag er verið að mælast til þess að við lækkum bankaskattinn um 8 milljarða á ári þegar breygingin er komin til framkvæmda. Ég er að benda á að það er hægt að finna þessum 8 milljörðum stað í ansi mörgum öðrum verkefnum sem ríkisstjórnin og þjóðin hefur verið að kalla eftir. Það vantar fjármuni víða eins og oft er, eðlilega, og því átta ég mig ekki á þessari forgangsröðun ríkisstjórnarinnar á meðan staðan er eins og hún er í lykilþáttum velferðarkerfisins. Ég ítreka að þessi bankaskattur átti ekki að vera að eilífu, hann átti að vera tímabundinn og hann á að vera tímabundinn. En ég lýsi því yfir að ég tel þetta ekki vera rétta tímapunktinn til að lækka hann með þessum hætti.

Ég man að þegar bankaskatturinn var settur á hafði hann tvenns konar tilgang, var m.a. til tekjuöflunar fyrir ríkissjóð, sem hann hefur verið og ég segi að hann hefur enn hlutverki að gegna fyrir tekjuöflun ríkissjóðs. En hinn tilgangurinn með bankaskattinum var sá að hann átti að mæta þeim kostnaði sem ríkið varð fyrir við hrunið. Að sjálfsögðu varð ríkið, og almenningur og fyrirtækin í landinu, fyrir gríðarlegum kostnaði vegna bankahrunsins og kannski er ágætt að rifja það upp hversu stórt bankahrunið var. Ef við tækjum saman gjaldþrot þessara þriggja íslensku banka yrði það þriðja stærsta gjaldþrot í sögu Bandaríkjanna, hefði verið stærra gjaldþrot en Enron. Ég lék mér einu sinni að því að uppreikna Marshall-aðstoðina og ef við setjum það í samhengi við bankahrunið er tapið sem orsakaðist af gjaldþroti íslensku bankanna helmingurinn af allri Marshall-aðstoðinni. Þá er ég ekki að tala um Marshall-aðstoðina sem fór frá Bandaríkjunum til Íslands, ég er að tala um alla Marshall-aðstoð Bandaríkjanna til allrar Evrópu sem átti þátt í því að byggja Evrópu upp eftir gjöreyðingarstríð seinni heimsstyrjaldarinnar. Og til að undirstrika hversu stór og mikill kostnaður var af þessu hruni er kostnaðurinn sem hlaust af íslenska hruninu meiri en öll alþjóðleg aðstoð til Afríku samanlagt. Kostnaðurinn var mikill og lenti á mörgum aðilum, mörgum erlendum kröfuhöfum, en ekki síst á ríkissjóði og íslenskum fyrirtækjum.

Og af hverju er ég að gera þetta að umtalsefni? Það er vegna þess að hér hefur komið fram að hluti af ástæðunni fyrir því að við erum að lækka bankaskatt sé að gera bankana söluvænni. Það er stóra málið. Ég held að við munum takast á um það í vetur eða hvernig sem það verður, hvort og þá með hvaða hætti við eigum að selja bankana og ég verð að segja að sporin hræða.

Herra forseti. Það tók einkarekið bankakerfi einungis fjögur ár að keyra hér allt í kaf. Ég hef velt því fyrir mér hvort almenningur sé á þeirri skoðun að nú sé rétti tíminn til að einkavæða bankana. Ég hef efasemdir um það og ég held að margt mæli með því að ríkið haldi sínum eignarhlutum í báðum bönkunum. Við þurfum a.m.k. að skoða þetta vel. Eins og hæstv. fjármálaráðherra gat um er fjármálamarkaðurinn að breytast hér á landi og þetta er líka ákveðinn fákeppnismarkaður og ég held að hér þurfi svo sannarlega að líta til reynslunnar.

Ég vil líka taka undir orð hv. þm. Birgis Þórarinssonar um það hvort tryggt sé að lækkun bankaskattsins skili sér til neytenda í lægri vöxtum. Það á eftir að koma í ljós en það hlýtur að vera forsenda þess að við getum sætt okkur við þessa lækkun. Eitt sinn var sagt við mig að sá sem eigi banka á Íslandi eigi Ísland, og ég held að eignaójöfnuðurinn sé kannski nægur fyrir á Íslandi. Við þurfum því að hugsa það mjög vel hvort við höfum einfaldlega efni á því að lækka bankaskattinn á meðan verkefnin blasa við í velferðarkerfinu. Að sama skapi þurfum við að velta því fyrir okkur hvort þetta er rétti tímapunkturinn, ef við hugsum nokkra leiki fram í tímann, til að selja hlut íslenska ríkisins í Íslandsbanka og að hluta til í Landsbankanum. Það er eflaust eitt af stærstu málunum sem þetta þing mun ræða í vetur.