150. löggjafarþing — 6. fundur,  17. sept. 2019.

sérstakur skattur á fjármálafyrirtæki.

4. mál
[18:34]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er kannski einkum tvennt sem ég myndi vilja benda á í tilefni af þessari ræðu. Það er annars vegar það að þetta frumvarp um lækkun bankaskattsins hefur engin áhrif á fjárlagafrumvarp næsta árs, bara engin. Það kemur engin lækkun fram á næsta ári á bankaskattinum og bæði tekju- og gjaldahliðin eru algerlega ósnertar af þessu máli. Það er engin ástæða til að vera að tína upp úr fjárlagafrumvarpinu einstakar aðhaldsaðgerðir eða aðrar ráðstafanir sem eru ætlaðar til þess að við náum markmiðum okkar um heildarafkomu á næsta ári í tengslum við þetta mál. Hins vegar er það út af fyrir sig rétt að heildarskattlagningin er umtalsverð á fjármálakerfið og það er auðvelt að láta sér detta í hug einhver útgjaldatilefni til þess að ráðstafa svona miklum tekjum. En tekjur ríkisins eru enn að aukast, þær hafa aukist, og ég held að það sé miklu nær að spyrja sig hvort sú 110 milljarða árlega útgjaldaaukning sem við erum að horfa á í fjárlagafrumvarpinu nýtist. Nú er ég bara tala um frumgjöldin. Rammasett frumgjöld í fjárlagafrumvarpi næsta árs eru 110 milljörðum hærri á föstu verðlagi en þau voru 2017. Ef þessi ræða er til að segja að þau þurfi að vera 118 milljörðum hærri held ég að við þurfum að fara að dýpka aðeins umræðuna um það hvernig fjármunirnir nýtast og hvort það sé örugglega þannig að aðeins með því að hækka alltaf útgjöldin viðstöðulaust náum við betur markmiðum okkar. Ég hef nefnilega efasemdir um það.

Ég bendi á að þrátt fyrir þetta frumvarp gerum við áfram ráð fyrir meiri stuðningi við öll stóru velferðarmálin, heilbrigðismálin. Við gerum ráð fyrir því að styðja betur við menntamál í landinu og við getum gert hvort tveggja.