150. löggjafarþing — 6. fundur,  17. sept. 2019.

sérstakur skattur á fjármálafyrirtæki.

4. mál
[18:38]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er þeirrar skoðunar að við höfum verið með útgjaldavöxt sem er alveg á mörkum þess að við ráðum við að standa undir því með sjálfbærum hætti. Það var þörf fyrir að styðja betur við ýmis stuðningskerfi og stóru opinberu kerfin eins og í heilbrigðismálum. Með stuðningskerfum er ég m.a. að vísa til almannatrygginga. Það er ekki hægt að láta sem svo að það þurfi héðan í frá bara að bæta í. Það gengur alls ekki í mínum huga, að fara að bæta enn meira í en við höfum verið að gera.

Varðandi Landspítalann höfum við, af þeim 110 milljörðum sem ég var að vísa til áðan að rammasett útgjöld hefðu vaxið um frá 2017, sett 35% í heilbrigðismál og stærsti hluti þess hefur farið til Landspítalans. Þegar ríkisstofnanir eru reknar með halla þarf að spyrja hvernig á því stendur. Það er ekki bara hægt að segja: Þegar um heilbrigðisstofnanir er að ræða þurfum við að bæta mönnum hallareksturinn. Grunnreglan hlýtur að vera sú að ríkisstofnanir, Landspítalinn eins og allar aðrar, eigi að halda sig innan fjárheimilda. Það hlýtur að vera grunnreglan. Við höfum skrifað út í lögum hvað á að gerast ef menn stefna í halla. Þá eiga að eiga sér stað samskipti milli viðkomandi stofnunar og ráðuneytis og það á að fara í aðgerðir til að koma stofnuninni innan fjárheimilda. Það er það sem ég sakna hér í þinginu að sé ekki oftar rætt. Ég vonast til þess að fjárlaganefnd nálgist málið á þann hátt að Landspítalinn eins og aðrar ríkisstofnanir eigi að halda sig innan fjárheimilda. Ef þingið ætlar að senda út þau skilaboð að Landspítalinn geti hunsað fjárheimildir, hunsað fjárlög, er ég ansi hræddur um að aðrar ríkisstofnanir muni vilja láta það sama ganga yfir sig og við missum niður allan aga við framkvæmd fjárlaga.