150. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2019.

veggjöld og borgarlína.

[10:37]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Fyrst varðandi síðasta atriðið sem hæstv. ráðherra nefndi, að þetta snerist um að greiða fyrir umferð. Það eru væntanlega tíðindi fyrir samstarfsmenn hæstv. ráðherra í borgarstjórn, þ.e. meiri hlutanum þar, því að fyrst og fremst er talað um að þrengja þurfi að bílunum og það hefur birst í raun á undanförnum árum. Borgarlínan er einmitt til þess hugsuð að taka pláss af bílunum svoleiðis að ekki er verið að tala um ný gatnamót, það er ekki verið að tala um Sundabraut, það er ekki talað um aðgerðir sem raunverulega væru til þess fallnar að greiða fyrir samgöngum heldur þvert á móti á að halda áfram á þeirri braut að þrengja að umferðinni og refsa mönnum svo sérstaklega fyrir það að sitja fastir með einhvers konar nýjum gjöldum.

Ég hef áður heyrt hæstv. ráðherra lýsa áhyggjum sínum af því að eigendur rafmagnsbíla muni ekki borga nógu mikið þegar fram líða stundir. En sé þetta hluti af áformum um að láta eigendur rafmagnsbíla greiða meira, er þá ekki eðlilegt að önnur gjaldtaka lækki á móti eða verða þetta enn ein viðbótargjöldin sem ríkið leggur á fólk, (Forseti hringir.) því það er verið að kynna þetta núna og þetta virðist standa fyrir dyrum?