150. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2019.

veggjöld og borgarlína.

[10:38]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Varðandi gjaldtökuna stöndum við eiginlega úti í miðri á. Við erum að fara í algjöra endurskoðun á gjaldakerfum ríkisins um þetta efni. Í þeim samskiptum sem eiga sér stað við sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu erum við einfaldlega að vísa því aðeins inn í framtíðina nákvæmlega hvernig þeir hlutir munu verða útfærðir.

Þetta er þróun sem við getum ekki horft fram hjá og þegar hv. þingmaður lýsir áhyggjum af því að heildargjaldtökur af ökutækjum muni aukast er ég með honum í liði í því að við eigum ekki að þurfa að auka gjaldtökur á ökutæki til að fara í gegnum þessa breytingu. Við getum heldur ekki setið hjá þegar tekjustofnarnir eru að falla, þegar þeir gefa jafn mikið eftir og raun ber vitni. Ég nefndi áðan bara dæmi úr virðisaukaskattinum frá því í fyrra þar sem við gáfum 3 milljarða í ívilnun en við erum líka að gera þetta fyrir aðflutningsgjöldin og svo erum við að upplifa það að eldsneytisgjöldin eru auðvitað sem tekjustofn til framtíðar að fara að gefa eftir. (Forseti hringir.) Ég lít ekki á þetta sem gríðarlega ógn. Ég horfi á það sem gríðarleg tækifæri fyrir samfélagið okkar, að við hættum að kaupa orku af öðrum þjóðum til að keyra samgöngutæki á Íslandi.