150. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2019.

skattar á lægstu laun.

[10:42]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Samfélag okkar er í þróun. Þegar ég kom í fjármálaráðuneytið árið 2013 voru lægstu taxtar innan við 200.000 kr. Þeir eru þó komnir upp í 300.000 kr. á ekki fleiri árum og skattarnir á þetta sama fólk hafa lækkað. Við höfum aldrei farið í jafn stóra skattalækkun seinni árin í tekjuskattskerfinu og þá sem við erum að leggja til núna og hún er sérsniðin með nýju skattþrepi til að ná sérstaklega til þeirra sem eru neðst í tekjustiganum. Ef hv. þingmaður er að koma hér upp og spyrja mig um það hvort ekki væri gott ráð að hækka skatta á þá sem sérstaklega eru tilgreindir, eru yfir meðallaunum, t.d. í kringum 1 milljón, tel ég það einfaldlega óþarft. Ég held að skattbyrðinni hafi aldrei verið jafn vel dreift og henni verður dreift eftir að þessi lagabreyting hefur tekið gildi. Við tökum ekki bara í krónum heldur líka hlutfallslega langminnst af þeim sem eru neðst í tekjustiganum og við tökum hlutfallslega og í krónum langmest af þeim sem eru ofar. Þá erum við bara að horfa á tekjuskattskerfið. Ef við bætum síðan bótakerfunum ofan á, barnabótakerfinu, vaxtabótakerfunum, öðrum stuðningskerfum og almannatryggingum, sjáum við hversu mikið við leggjum á okkur til að tryggja jöfnuð í samfélaginu. Við höfum reyndar náð það miklum árangri í þeim efnum að ekkert annað samfélag stendur okkur framar.

Þetta er stóra mynd málsins. Þrátt fyrir það sem hv. þingmaður segir um að allt sé ómögulegt og að við séum með ósanngjarnt skattkerfi skila vinnumarkaðssamningar með almannatryggingum til hliðsjónar og öðrum bótakerfum og skattkerfinu, í samhengi við umræðuna um jöfnuð, bestu niðurstöðu sem finnst.