150. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2019.

skattar á lægstu laun.

[10:45]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegur forseti. Svar mitt liggur einfaldlega í því að þetta er sanngjarnt skattkerfi sem við erum að leggja til, sanngjörn breyting sem mun, já, lækka skatta, ekki bara á þá sem eru neðst í tekjustiganum heldur líka þá sem greiða hæstu skattana. Þegar komið er upp fyrir þau tekjumörk sem hv. þingmaður nefndi, sem eru rétt í kringum 1 milljón, fjara áhrif skattbreytinganna hins vegar út.

Aðalatriðið er að við skoðum það af einhverri sanngirni hvernig við sem samfélag reynum að styðja við þá sem hafa minnst á milli handanna. Og svarið við spurningunni er nei. Ég myndi ekki treysta mér að hafa jafn lítið og þeir sem hafa minnst milli handanna til að lifa því fjölskyldulífi sem ég lifi í dag, með fjögur börn o.s.frv., þó að sum séu flutt að heiman. Það er augljóst. En við svörum ekki álitamálum um það hvernig við getum gert kerfið okkar betra með því að hafa bara svar við þeirri spurningu. Við þurfum að skoða hvernig heildarkerfið, stuðningskerfin, skattkerfin og annað það sem við erum að gera í samvinnu við vinnumarkaðinn, (Forseti hringir.) kemur út fyrir samfélagið í heild. Í því samhengi er algjörlega óumdeilanlegt að við erum á réttri leið.