150. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2019.

skráning einstaklinga.

101. mál
[11:17]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil víkja örfáum orðum að því sem ráðherrann lauk máli sínu á, gjaldtökunni. Þá sérstaklega að tvennu sem kom fram við umfjöllun þingsins í vor. Annars vegar er það sú skrýtna tilhögun að tíundi hluti rekstrar þjóðskrár sé greiddur af annarri ríkisstofnun, hvort það hafi verið skoðað sérstaklega, sá háttur að Tryggingastofnun ríkisins dekki reikninginn fyrir hluta af rekstri Þjóðskrár sé kannski eitthvað sem við ættum að fara að leggja af. Ég er sammála ráðherranum um að almennt eigi upplýsingar að vera gjaldfrjálsar og aðgengilegar en eins og hann segir getur mögulega verið eitthvað í land með að ná almennri stefnu um það fyrir stofnun af þessari stærðargráðu. En við erum með sértæka gjaldtöku sem okkur var bent á í allsherjar- og menntamálanefnd að orkaði tvímælis, sem er gjaldtaka á vottorðum sem einstaklingar þurfa að sýna, t.d. við afgreiðslu hjá sýslumannsembættunum. Aðallega er um að ræða fæðingar- og forsjárvottorð sem fólk þarf að láta fylgja umsóknum til sýslumanna. Hér á höfuðborgarsvæðinu var slumpað á að þetta gætu verið kannski 3.500 vottorð á ári, sem fólk þarf að ferja á milli embætta og greiða þá væntanlega 9 milljónir á ári til Þjóðskrár fyrir það. Ég velti því fyrir mér hvort ríkið gæti ekki komið til móts við þessa einstaklinga með því að sýslumenn gætu einfaldlega flett gjaldfrjálst upp í þjóðskrá þegar þessar upplýsingar þurfa að liggja fyrir við afgreiðslu umsókna hjá sýslumönnum.