150. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2019.

skráning einstaklinga.

101. mál
[11:19]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Andrési Inga Jónssyni fyrir þessar spurningar eða vangaveltur. Ég tek undir það með hv. þingmanni að það er einhvers konar tímaskekkja að Tryggingastofnun sé að greiða ákveðinn hluta af rekstri þjóðskrár. En svo að vitnað sé til greinargerðar í frumvarpi, þegar þetta var ákveðið á sínum tíma, var það talið heppilegast. Ég held að það orðalag hafi einmitt verið notað, heppilegasta fyrirkomulagið. Ég tek það einmitt upp hér að setja á laggirnar starfshóp til þess m.a. að greina þessa þætti og vissulega líka þá þætti sem hv. þingmaður endaði á að tala um, þ.e. sölu vottorða. Auðvitað eru þetta þjónustutekjur í dag og við þurfum að greina það vel.

Herra forseti. Stjórnkerfið allt og ríkisstjórnin setur bæði fjármuni og mikla vinnu í hið rafræna samfélag. Þegar menn fara á einn stað hins opinbera, einhverja eina stofnun, á fólk ekki að þurfa að ganga með pappíra á milli yfir í næstu stofnun heldur eiga viðkomandi stofnanir að geta kallað eftir upplýsingum úr kerfinu. Við vitum að Eistland er komið hvað lengst í þessu. Á sínum tíma, þegar Eistar fengu frelsi og lýðræðislega stjórn, sögðu þeir: Við viljum gjarnan verða eins og Norðurlöndin. Við erum oft að tala um það í þessum sal líka en þeir gerðu sér grein fyrir því að það gætu þeir ekki orðið með þeim fjármunum sem þeir hefðu úr að spila. Við verðum að finna einhverja aðra leið, sögðu þeir, og það var hin rafræna stjórnsýsla sem þeir leituðu í. Við erum þar á fullu og þetta mun að nokkru leyti svara kalli hv. þingmanns. En við þurfum líka að skoða, í vinnu þessa starfshóps, hvernig tekjur verða til.