150. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2019.

skráning einstaklinga.

101. mál
[11:22]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Mig langar að freista þess að fá hv. þingmenn til að hugsa aðeins út fyrir lagatæknina og velta fyrir sér gildum og hvað við sem þingmenn teljum, pólitískt og persónulega, vera nógu góðar ástæður til þess að safna saman persónuupplýsingum, dreifa þeim og nýta þær. Málavextir eru þeir að þær eru nýttar og þeim er safnað í misjöfnum tilgangi og með misjöfnum hætti á mismunandi stöðum. Blessunarlega fengum við nýja persónuverndarlöggjöf lögfesta nýlega og það er tímamótamál og mjög gott og mikilvægt í alla staði. Hún hefði reyndar mátt koma 20 árum fyrr en það er gott að hún er komin. Ég býst fastlega við því að þessi löggjöf sé í samræmi við hana. Við lendum stundum svolítið í vandræðum með það þegar við lítum á persónuverndarmál alfarið út frá lagatækni að við setjum okkar eigin siðferðisþröskuld kannski lægra en tilefni er til. Ég vil nefna sérstaklega 5. gr. frumvarpsins þar sem fjallað er um persónuupplýsingar sem Þjóðskrá er heimilt að vinna með:

„Þjóðskrá Íslands er heimil vinnsla persónuupplýsinga, þar á meðal upplýsinga um heilsufar, þjóðerni, trúarbrögð og hjúskaparstöðu, og annarra upplýsinga sem hinn skráði lætur stofnuninni í té …“

Ég efast ekki um að þetta standist lagatæknilega skoðun. Við skoðum það væntanlega betur í nefnd. Tilgangurinn þarf að vera sá að sinna lögbundnu markmiði. Markmiðið með því að skrá trúarbrögðin, sem mér finnst persónulega tiltölulega galið að vera að skrá svona miðlægt, er tengt þessu hábölvaða sóknargjaldakerfi sem er arfleifð þjóðkirkjunnar. Ég kalla hana reyndar ríkiskirkjuna en af einhverjum ástæðum hafa meiri hlutar, hvort sem það eru kynþættir eða trúarhópar, tilhneigingu til að setja sjálfa sig í meiri forgrunn en minnihlutahópa, sem í þessu tilfelli eru ókristnir. Ef ekki væri fyrir þetta þjóðkirkjufyrirkomulag, eins fráleitt og það nú er, efast ég um að lagaleg forsenda væri fyrir því að skrá sérstaklega trúarbrögð fólks. Trúarbrögð fólks geta verið mjög persónulegt mál og hörmuleg voðaverk hafa verið framin í gegnum tíðina á grundvelli trúarbragða. Nefna má múslima í Kósóvó, gyðinga í Þýskalandi, kristna víða í Miðausturlöndum — og trúlausa, dirfist ég að segja, víðast hvar og oftast. Það er ekki fyrr en nýlega og á afmörkuðum svæðum sem það var skyndilega ekki hræðilegt siðleysi að vera guðleysingi. Það er nýtilkomið og sú breyting er ekki einu sinni alveg um garð gengin, jafnvel ekki hér á Vesturlöndum.

Spyrjum okkur spurningarinnar: Viljum við hafa hlutina þannig að þjóðskrá sé að taka saman á miðlægan stað hjá ríkinu, hjá framkvæmdarvaldinu, trúarbrögð fólks sem hafa verið notuð til þess beinlínis að framkvæma þessi voðaverk, sögulega, ekki bara sem heppilegt verkfæri heldur beinlínis sem eitt aðalverkfærið? Við myndum aldrei samþykkja að hafa trúarbrögð þarna inni ef ekki væri fyrir þetta hábölvaða þjóðkirkjufyrirkomulag. Með því einu að hafa sterka rótgróna hefð á Íslandi og algerlega fráleitt stjórnarskrárákvæði um þjóðkirkju erum við einhvern veginn búin að gera það lagatæknilega fýsilegt og réttlætanlegt að setja þarna inn upplýsingar sem við vitum að ekki ætti að safna saman á miðlægum stað hjá framkvæmdarvaldinu. Ef ekki væri fyrir þjóðkirkjufyrirkomulagið og þá kröfu sem hefur viðgengist hér, að hin evangelíska lúterska kirkja og hennar sóknarbörn njóti sérstakra forréttinda umfram aðra trúarhópa, dytti okkur ekki í hug að skrá þetta. Ef einhver myndi stinga upp á því myndum við benda til Þýskalands þar sem slík skráning var beinlínis notuð til að finna gyðinga, gyðinga sem höfðu skipt um nafn, úr nöfnum sem þóttu gyðingleg yfir í nöfn sem þóttu þýsk. Þannig fannst fólk og því var smalað saman og það var myrt, skipulega út frá svona skráningu. Okkur þætti það því eflaust galið ef ekki væri fyrir það að okkar hefð er nú sem betur fer mildari en það, og gott betur, aldeilis. En mér finnst þess virði að við spyrjum okkur nákvæmlega að þessu, ekki bara hvort við komumst upp með svona skráningar lagatæknilega heldur hvort við göngum ekki of langt miðað við okkar eigið siðferðismat og okkar eigin skoðanir á því hvað sé við hæfi umfram þennan lægsta sameiginlega samnefnara sem er hvort það standist persónuverndarlöggjöf út frá lagatæknilegum sjónarmiðum.

Okkar staðall ætti að vera hærri að mínu mati. Við eigum að vera best. Ísland á að reyna að vera best í friðhelgi einkalífs, í tjáningarfrelsi, í lýðræði. Við eigum að reyna að vera best í þessum hlutum. Við eigum ekki bara að reyna að rétt standast einhverjar lögformlegar kröfur. Ef við trúum á þessi gildi setjum við okkur hærri staðal en einfaldlega lagatæknilegt samræmi. Eftir stendur að þetta er nú þegar skráð. Það er ekki eins og einhver nýlunda sé í þessu frumvarpi. Þetta þýðir ekki að ég sé sjálfkrafa á móti frumvarpinu. Ég hafði nú skoðað það einhvern tímann en hyggst skoða það aftur, mér skilst að þetta komi til minnar nefndar, hv. allsherjar- og menntamálanefndar. En mér finnst alveg þess virði að velta fyrir sér, þegar 16 liðir eru tölusettir í 6. gr. frumvarpsins, hvort það þurfi virkilega að hafa þetta allt saman þarna. Getum við ekki sleppt einhverju af þessu? Ef við getum sleppt einhverju af þessu finnst mér að við ættum að gera það einfaldlega vegna þess að við getum það, einfaldlega til þess að vera best. Við eigum ekki bara að finna einhverjar afsakanir fyrir því að skrá þetta, við eigum að hafa góðar ástæður fyrir því að skrá þetta og best væri að mínu mati að sleppa því að hafa þjóðskrá yfir höfuð. Ég átta mig á því að það fer út fyrir þankagang hins almenna Íslendings, ég átta mig á því, eins og reyndar frelsi almennt.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta — áður en ég fer að segja of mikla vitleysu. Ég ætla ekki að lýsa því yfir að ég sé á móti málinu en mér finnst það eiga að vekja okkur til umhugsunar um okkar eigin gildi umfram lagatæknilegar kröfur.