150. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2019.

ráðstafanir til hagkvæmrar uppbyggingar háhraða fjarskiptaneta.

122. mál
[11:38]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Svarið við fyrri spurningu hv. þingmanns er: Nei. Ég held að það sé ekki mögulegt að túlka reglugerðarheimildina í þá veru. Hún er fyrst og fremst hugsuð fyrir öryggissvæði þar sem menn eru einmitt ekki tilbúnir að opna slíkan aðgang og þar af leiðandi lýtur reglugerðarheimildin að því.

Þetta er mjög jákvætt mál í þeim skilningi að hér er verið að reyna að lækka kostnað á fyrirtæki sem eru sannarlega í mikilli samkeppni á markaði til að vinna saman að grunngerðum — ef við tölum íslensku: grafa skurði og slíkt. En auðvitað er þetta miklu flóknara. Grunnvirki eru auðvitað miklu fleira en skurðir. En allir geta séð ávinninginn af því að nota ferðina; þegar einn aðili hyggst grafa skurð, að þá sé það tilkynnt, auglýst. Aðrir aðilar geta þar af leiðandi sagt að þeir hafi áhuga á að nýta ferðina og með samtali, samstarfi og samvinnu komast menn að samkomulagi um skilmála. Ávinningurinn er síðan neytenda, almennings og samfélagsins alls í því.

Þannig að: Nei, ég get ekki ímyndað mér að nokkrum flokki á þingi dytti í hug að taka slíkt mál í málþóf. Hvað veit maður þó? En fjarskipti eru þess eðlis að þau eiga í sjálfu sér engin landamæri. Það er einmitt tilgangur fjarskipta að ná til fólks, til okkar þegar við ferðumst erlendis, og vera í samskiptum við fólk víða um heim og líka innan landa. En með þessu frumvarpi er fyrst og fremst verið að gera það mögulegt að gera það á eins hagkvæman hátt og hægt er.