150. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2019.

300 þús. kr. lágmarksframfærsla almannatrygginga.

17. mál
[12:06]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Hún veit vel að við stöndum saman í þessu og hugur okkar stendur til þess fólks sem býr við svo lága framfærslu. Eins og hv. þingmaður rakti hefur Flokkur fólksins barist fyrir að bæta kjörin. Að sjálfsögðu styð ég það og þakka henni fyrir að koma á framfæri skilaboðum um útreikninga og annað sem þeim fylgdi. Við erum öll á sama báti hvað það varðar að reyna að bæta kjör þeirra lægst settu í þjóðfélaginu. Það er nokkuð sem þingheimur á að sammælast um og á að vera forgangsmál vegna þess að margir í þessum hópi, undir þessum framfærsluviðmiðum, eru í starfi og eru að reyna að bjarga sér en ná ekki endum saman vegna þess að verið er að skattleggja tekjur sem eru svo lágar að það ætti ekki að þekkjast að við séum að skattleggja þær. Ég kom inn á það áðan að það er umhugsunarefni, herra forseti, að ríkissjóður skuli vera svona háður því að skattleggja svo lágar tekjur. Það er virkilegt umhugsunarefni. Ég sit í fjárlaganefnd og sé t.d. í nýja frumvarpinu einn lið upp á 17 milljarða sem eru skattkröfur sem hafa ekki innheimst einhverra hluta vegna. Það eru sem sagt álagðir skattar sem einstaklingar og fyrirtæki áttu að greiða en greiddu ekki. Þar sjáum við verulega upphæð sem hægt væri að (Forseti hringir.) nýta í að bæta kjör þessa fólks ef innheimta skattkrafna yrði bætt sem er forgangsmál og mjög nauðsynlegt að fara í.