150. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2019.

300 þús. kr. lágmarksframfærsla almannatrygginga.

17. mál
[12:09]
Horfa

Flm. (Inga Sæland) (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Það er ánægjulegt að hv. þingmaður skuli vera hér, einn af fáum. Þingheimi virðist ekki vera hjartans mál að taka utan um þetta sérstaka mál, enda er það mannanna verk hvernig komið er fyrir þeim þjóðfélagshópum sem lepja dauðann úr skel. Við spyrjum að leikslokum og sannarlega reynir maður að vera bjartsýnn hvað lýtur að því að aðrir þingmenn séu tilbúnir að taka utan um okkar minnstu bræður og systur og reyna að rífa upp úr sárustu fátæktinni. Eins og hv. þingmaður bendir réttilega á er það sárara en tárum taki ef skilaboðin eru þau að þjóðarskútunni sé nánast fleytt áfram með því að skattleggja sárafátækt. Það er með hreinum ólíkindum.

Þetta er allt mannanna verk og snýst um forgangsröðun fjármuna. Flokkur fólksins hefur sagt frá því að við komum fyrst inn á hið háa Alþingi að forgangsröðun fjármuna sé síðasta sort þegar við horfum upp á það að lækka eigi bankaskatt og veiðigjöld, samtals 11,3 milljarða á ári, á sama tíma og verið er að skattleggja sárafátækt. Á sama tíma sýna bankarnir alveg gríðarlegan hagnað og á sama tíma hefur útgerðinni nánast aldrei gengið betur — en við erum að skattleggja sárafátækt.

Virðulegi forseti. Það er sannarlega vitlaust gefið.