150. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2019.

300 þús. kr. lágmarksframfærsla almannatrygginga.

17. mál
[12:16]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Þór Ólafssyni fyrir framlag hans í þessu máli. Hann tók okkur þingmenn sem dæmi um þá sem hafa farið langt fram úr launaþróun og fengið leiðréttingar og meira en okkur bar. En það gildir því miður um flestalla í samfélaginu sem hafa fengið þetta og að vísu hafa þeir sem eru á lægstu laununum líka fengið ákveðnar hækkanir. Horfum á málið út frá staðreyndum. Hvaða hækkanir erum við alltaf að tala um og höfum alltaf verið að tala um undanfarin ár nema kannski í síðustu lífskjarasamningum? Það eru prósentuhækkanirnar. Þær eru svo ótrúlega ósanngjarnar í þessu kerfi og þess vegna verður gliðnunin alltaf meiri.

Það segir sig sjálft að það er alltaf haldið áfram, eins og hann kom inn á, t.d. er næsta hækkun um áramót 3,5% en laun eiga að hækka um 5,7% í apríl. Þetta hefur verið gegnumgangandi hjá þessari ríkisstjórn og það virðist líka alltaf gleymast í þessari umræðu að taka tillit til allra hópa. Ég vil fá þær upplýsingar hjá hv. þingmanni hvort hann sé ekki sammála því að það þurfi hreinlega að endurskoða þetta kerfi frá A til Ö og koma með svo einfalt kerfi að það væri alveg gagnsætt og allir gætu skilið það. Það ættum við að gera og það er það besta sem við gætum gert. Við vitum að í þessu kerfi eru eldri borgarar, öryrkjar, atvinnulausir og síðan fólk á framfærslu líka. Við gleymum þeim sem eru á framfærslu sveitarfélaga þannig að þetta eru mörg kerfi og þarna er verið að etja þeim saman.