150. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2019.

loftslagsmál og skuldbindingar Íslands á alþjóðavettvangi.

[12:32]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Forseti. Á morgun verður alþjóðlegt verkfall fyrir loftslagið haldið að frumkvæði ungs fólks og í þetta skiptið er lögð áhersla á að við, fullorðna fólkið, göngum út af vinnustöðum okkar, tökum þátt í verkfallinu og köllum eftir róttækari aðgerðum stjórnvalda gegn hamfarahlýnun. Á vefsíðu verkfallsins stendur, með leyfi forseta:

„Húsið okkar er að brenna. Hegðum okkur í samræmi við það og krefjumst loftslagsréttlætis fyrir alla.“

Skilaboðin eru býsna skýr. En hver eru skilaboð ríkisstjórnarinnar? Þá á ég ekki við persónulegar hugsjónir hæstv. ráðherra, ég efast ekki um að hún sé mér sammála um mikilvægi málaflokksins. Ég vil hefja þessa umræðu á því að ræða við hana um atriði í stefnu ríkisstjórnarinnar sem mér þykja fullóljós, of metnaðarlítil og jafnvel mótsagnakennd. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar stendur að gera eigi betur en Parísarsamkomulagið fyrir 2040. Aftur á móti nær Parísarsamkomulagið bara til 2030 þannig að hlutirnir eru einfaldlega ekki nógu skýrir. Við skulum gefa okkur það að aðrir aðilar að þessu samkomulagi ætli sér áframhaldandi árangur þegar 2030 sleppir.

Í aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar er líka talað um að stefnt sé að 40% samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda fyrir 2030 en samt virðist ríkisstjórnin ekki treysta sér til að semja um nema 29% samdrátt í samningaviðræðum við Evrópusambandið og Noreg. Telur ríkisstjórnin sig ekki geta staðið við 40% markmiðið? Hvort verður niðurstaðan 29% eða 40%? Óskýr og jafnvel þokukenndur málflutningur af þessu tagi nægir ekki til að blása almenningi metnaði í brjóst.

Ný forysta Evrópusambandsins leggur raunar áherslu á að ríki stefni á 55% minni losun. Þó að við eigum ekki aðild að því tel ég einboðið að við fylgjum eftir þessum metnaðarfullu markmiðum enda viljum við og eigum að vera í framvarðarsveit á alþjóðlegum vettvangi í baráttu gegn hamfarahlýnun.

Þótt markmið ríkisstjórnarinnar um kolefnishlutleysi sé vissulega metnaðarfullt finnst mér skorta aga og viðmið. Samfylkingin mun því leggja fram frumvarp á komandi vetri um lögfestingu kolefnishlutleysis árið 2040 og þar verður kveðið á um magnbundin og tímasett markmið og skýrt skilgreinda mælikvarða. Svíþjóð, Noregur, Bretland og Frakkland hafa þegar valið þessa leið. Ég spyr: Getur hæstv. forsætisráðherra hugsað sér að styðja slíka lögbindingu?

Samkvæmt stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er reyndar fjallað um að allar stærri áætlanir ríkisins eigi að meta út frá loftslagsmarkmiðum. Ég spyr: Hefur það verið gert með t.d. komandi samgönguáætlun, í samningum við landbúnaðinn og áformum um veggjöld? Ef svo er, hvar finn ég það?

Stærsta áætlun ríkisstjórnarinnar hverju sinni er fjárlög og ég spyr: Er fjárlagafrumvarpið rýnt með loftslagsmarkmið í huga?

Herra forseti. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar stendur að loftslagsmálin séu eitt af forgangsmálum íslenskrar utanríkisstefnu. Hæstv. forsætisráðherra fær gullið tækifæri til að standa við þau stóru orð á leiðtogafundi Sameinuðu þjóðanna næsta mánudag. Ég spyr því: Mun hæstv. ráðherra kynna ný og metnaðarfyllri markmið fyrir Ísland um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda sem verði lögbundin og sem eru í samræmi við niðurstöður Evrópuþingsins og samanburðarhæf við hin Norðurlöndin? Samfylkingin a.m.k. hvetur hana til þess og mun leggjast á árar með henni til að það verði hægt.

Hæstv. forsætisráðherra er örugglega sammála mér um hversu brýnt málið er og að það eigi skilið allan forgang. Það þolir enga bið. Við erum í skuld við framtíðina og við erum því miður í kapphlaupi við tímann.