150. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2019.

loftslagsmál og skuldbindingar Íslands á alþjóðavettvangi.

[12:36]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Loga Einarssyni fyrir að vekja máls á þessu mikilvæga máli. Það er við hæfi að við náum að ræða það áður en loftslagsfundur Sameinuðu þjóðanna hefst í New York þar sem eru miklar væntingar um hvað muni gerast. Ég vona svo sannarlega að það verði tekin skref í framfaraátt á þeim fundi.

Fyrst vil ég ræða aðeins um skuldbindingar okkar á alþjóðavettvangi. Þær eru auðvitað samkvæmt Parísarsáttmálanum þar sem kemur fram að Ísland muni vinna innan þess sameiginlegs markmiðs 30 Evrópuríkja að minnka losun um 40% til 2030 miðað við 1990. Innan þessa ramma hefur komið fram krafa á Ísland um 29% losun, af því að hv. þingmaður gerði það að sérstöku umtalsefni, en markmið okkar er eftir sem áður 40% samdráttur. En krafan sem á okkur er sett er 29% losun, bara svo það sé skýrt, á því á ekki að leika neinn vafi.

Til viðbótar við þær skuldbindingar sem íslensk stjórnvöld gengust undir með undirritun Parísarsáttmálans 2015, sem var mjög ánægjulegt skref og stigið í þverpólitískri sátt, hafa núverandi stjórnvöld sett sér markmið um kolefnishlutleysi 2040. Það má deila um hvort það sé nægjanlega metnaðarfullt en það er metnaðarfullt á alþjóðavísu. Ef ég lít til þess sem nágrannalönd okkar að gera eru þau mörg hver að setja sér slík markmið og Ísland stendur þar framarlega í flokki. Við höfum lagt á það áherslu að markmiðið sé raunhæft, að hægt sé að ná því. Og af því að hv. þingmaður veltir því upp hvort markmið Íslendinga séu nægjanlega skýr og metnaðarfull til að blása almenningi sóknarhug í brjóst til að takast á við loftslagsvána vil ég segja að mér finnst bæði íslenskt atvinnulíf og íslenskur almenningur — og þegar ég tala um atvinnulíf er ég bæði að tala um fyrirtækin í landinu og heildarsamtök launafólks á Íslandi — hafa svo sannarlega gripið þann bolta. Hér í dag verður stofnaður með formlegum hætti samstarfsvettvangur stjórnvalda og atvinnulífs um grænar lausnir þar sem ætlunin er annars vegar að miðla þeirri þekkingu sem við höfum skapað hér á Íslandi og hins vegar að efla samstarf til að ná þessu markmiði í samvinnu atvinnulífs og stjórnvalda. Ég er mjög ánægð með þann hug sem bæði fyrirtæki, samtök launafólks og almenningur hafa sýnt í þessum málum. Þau hafa sýnt að þau vilja taka þátt í þessu, að þau sjá líka sóknarfærin fyrir íslenskt samfélag í því sem við erum að gera, bæði til að takast á við loftslagsvána en líka til að bæta samfélag okkar.

Sú aðgerðaáætlun sem við kynntum á sínum tíma, þ.e. fyrir réttu ári, fól í sér m.a. mjög viðamikla áætlun um kolefnisbindingu þar sem verður ráðist í fjölbreytt verkefni um land allt til að binda kolefni úr andrúmslofti og endurheimta votlendi. Auk þess að stuðla að árangri fyrir loftslagið í landinu miða þessar aðgerðir af því að efla lífríkið á Íslandi og líffræðilega fjölbreytni. Aðgerðir eru þegar hafnar og samkvæmt fjögurra ára áætlun er gert ráð fyrir að árlegt umfang landgræðslu og skógræktar tvöfaldist og endurheimt votlendis tífaldist. Umfangsmikil skref hafa þegar verið stigin varðandi orkuskipti í samgöngum sem voru kynnt í júní og miða að því að fjölga hraðhleðslustöðvum og stuðla að orkuskiptum hjá bílaleigum í samvinnu við ferðaþjónustuna og hafa áhrif á eftirmarkað með rafbíla hér á landi. Þær fjárfestingar sem fást eftir að fyrstu styrkauglýsingar stjórnvalda voru kynntar gætu numið allt að 1 milljarði kr. á árunum 2019–2020. Viðbrögðin létu sem sagt ekki á sér standa.

Ég nefndi áðan samstarfsvettvang stjórnvalda og atvinnulífs en sem liður í undirbúningi fyrir stofnun hans skrifuðum við sameiginlega undir yfirlýsingu, öll stóriðjufyrirtæki á Íslandi og Orkuveita Reykjavíkur ásamt stjórnvöldum, um að rannsaka hvort og hvernig megi draga úr losun frá verksmiðjum stóriðjufyrirtækja með niðurdælingu kolefnis í berglög.

Í þriðja lagi hefur mjög margvíslegum aðgerðum verið hrint í framkvæmd sem spanna mjög margt. Ég vil til að mynda nefna þá skyldu sem Alþingi lagði fyrr í vor á Stjórnarráð Íslands, að stofnanir ríkisins og fyrirtæki í meirihlutaeigu ríkisins, auk sveitarfélaga um land allt, skuli setja sér loftslagsstefnu og markmið um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda. Loftslagsráð hefur verið lögfest og sömuleiðis fest í lög að unnar skuli vísindaskýrslur. Við erum að innleiða breytingar í hagstjórn okkar með bæði grænum ívilnunum og grænum sköttum þannig að efnahagslegir hvatar vinni með okkur að loftslagsmarkmiðum. Sömuleiðis erum við að vinna að eflingu almenningssamgangna, samhliða öðrum umbótum í samgöngumálum. Síðast en ekki síst erum við að forgangsraða fjármunum í rannsóknir á loftslagsbreytingum því það er auðvitað algjört lykilatriði að við nýtum þá þekkingu sem við eigum og öflum nýrrar þekkingar samhliða þeim aðgerðum sem við ráðumst í til þess að aðgerðir okkar skili árangri.

Velsældarmarkmiðin, af því að hv. þingmaður nefnir hér áætlanagerð, sem kynnt voru í síðustu viku fela í sér töluvert mörg umhverfismarkmið. Við næstu fjármálaáætlun munu velsældarmarkmiðin, þar með talin umhverfismarkmiðin, vera á þeim mælikvarða sem við miðum við þegar við (Forseti hringir.) tökum stefnumótandi ákvarðanir um fjárútlát stjórnvalda til lengri tíma.

Það er mjög mikið verið að gera til að framfylgja loftslagsáætlun stjórnvalda en um leið er verið að vinna samkvæmt (Forseti hringir.) bestu mögulegu þekkingu og rannsóknum til þess að tryggja að aðgerðir skili árangri og þær séu í sem breiðastri samstöðu og samstarfi í samfélaginu öllu.